132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[19:51]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er einn fjögurra flutningsmanna þessarar breytingartillögu sem er sáttaleið, mildari leið að nákvæmlega sama markmiði sem er að þeir sem ekki reykja og ekki vilja vera innan um reyk og þeir sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum þurfi aldrei að anda að sér reyknum og því eitri sem í honum er. Þetta er leið til að ná því markmiði sem samstaða er um að ná þvert á alla flokka, miklu mildari og betri leið en það fortakslausa bann og sú mikla forræðishyggja yfir athöfnum frjálsra fullorðinna og sjálfráða einstaklinga og hér er lagt til.

Með þessari breytingartillögu næst þetta markmið að fullu og öllu leyti. Þetta er miklu betri leið og nær markmiðinu alveg fram. Því flyt ég þessa tillögu með þeim flutningsmönnum og segi já.