132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

grunnskólar.

447. mál
[20:11]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Verði 23. gr. frumvarpsins að lögum er það lögfest að lágmarksframlag sveitarfélaga til einkarekinna grunnskóla verði sem þar segir 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögunum í landinu.

Við í minni hlutanum sem flytjum frávísunartillögu á þetta frumvarp teljum að lögbindingin á lágmarksframlagi til einkaskóla gangi gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga og brjóti í bága við markmið sveitarstjórnarlaga. Þá er þessi lagasetning í hrópandi andstöðu við þróun undanfarinna ára varðandi löggjöf um verkefni til sveitarfélaga því að slíkar íhlutanir í starfsemi og rekstur sveitarfélaga sem mátti áður finna hafa nú nánast verið aflagðar með öllu.

Því leggjumst við eindregið gegn þessari lagagrein sem gengur svo þvert og freklega gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga og þar bergmálum við öflug mótmæli t.d. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem lagðist eindregið gegn lagagrein þessari. Ég segi nei.