133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það má með sanni segja að hæstv. ráðherrar hafi hér talað annar í austur og hinn í vestur í bókstaflegum skilningi, því að hæstv. forsætisráðherra ræddi fyrst og fremst um samstarfið við Bandaríkin og kom inn á það í lokaorðum sínum að hann vonaði að það yrði hér eftir sem hingað til farsælt, eins og það hefur verið að hans dómi allt frá 1951. Síðan kom hæstv. utanríkisráðherra og talaði aðallega í austur, þ.e. um Evrópu, og fór mörgum orðum um uppbyggingu varnarstarfs og hernaðarmáttar Evrópusambandsins og mænir greinilega þangað vonaraugum. Sem sagt, forsætisráðherra horfir í vestur, utanríkisráðherra horfir í austur.

Það hvernig endalok bandarískrar hersetu bar að hér á landi á undangengnum mánuðum var ákaflega táknrænt fyrir eðli þessara samskipta allan tímann. Bandarískur her var á Íslandi í þágu bandarískra hernaðarhagsmuna og bandarískur her fór af Íslandi þegar Bandaríkjamönnum sýndist svo vegna sinna eigin hagsmuna. Það má segja að þeir hafi valið þá aðferð sem hvað ruddalegust gat orðið og mest niðurlægjandi fyrir Íslendinga. Það er kaldhæðnislegt í ljósi þess að í ríkisstjórn sitja þeir flokkar sem hvað dyggilegast hafa staðið vörð um erlenda hersetu allt frá því að þeir komu henni á í landinu. Ekki var nú kannski beinlínis verið að launa þeim stuðninginn með því að gera þetta á sérstaklega kurteislegan hátt. Ja, sjaldan launar kálfurinn ofeldið.

Það er enginn vafi á því að við eigum nú sem endranær mikið þeim að þakka sem andæfðu dvöl erlends hers í landinu allan tímann. Það er t.d. alveg ljóst að það andóf á stóran þátt í því að erlend herseta varð aldrei jafnumfangsmikil að íslenskur þjóðarbúskapur varð henni ekki eins háður og ella hefði orðið. Við eigum það herstöðvarandstæðingum og friðarsinnum að þakka að hér varð ekki svipað ástand og á japönsku eyjunni Okinava. Hefðu Bandaríkjamenn fengið óskum sínum framgengt, sem studdar voru af ýmsum öflum hér innan lands, um miklu umfangsmeiri hernaðaruppbyggingu en varð þá hefði að sama skapi samdráttur og síðan brottför þeirra nú haft miklu umfangsmeiri áhrif í efnahagslífi landsmanna. Ef þeir hefðu farið út í allar þær stórframkvæmdir í Hvalfirði eða austur á Rangárvöllum og víðar í landinu sem þeir hugðu á hefði íslenskur þjóðarbúskapur orðið miklu meira undirlagður af þeim umsvifum. Ég held að allir hljóti að sjá í ljósi þess sem nú blasir við og liggur fyrir að slíkt hefði verið ákaflega óheppilegt þá þegar af þeim ástæðum fyrir utan hinn utanríkis- eða friðarpólitíska þátt málsins. Her er ótryggur vinnuveitandi, sérstaklega þegar stórveldi á í hlut sem gerir nákvæmlega það sem því sýnist, eins og því sýnist og þegar því sýnist.

Árið 1955 var reist herstöð á Heiðarfjalli, sorgleg saga allt það mál. Það setti það litla byggðarlag á annan endann og olli því að í 15 ár, á meðan á uppbyggingu og rekstri herstöðvarinnar stóð, voru menn ekki mjög uppteknir af því að byggja upp annað atvinnulíf á meðan allir gátu fengið þar vinnu eins og þeir vildu. En svo gerist það að Bandaríkjaþing ákveður að skera niður fjárveitingar til hersins 1969 eða 1970 og á örfáum vikum er þessari herstöð lokað, bara skellt í lás, Kaninn farinn, eins og reyndar hefur verið að gerast núna suður á Miðnesheiði. Eftir sat þetta byggðarlag auðvitað með atvinnumál sín í miklu ójafnvægi eins og gefur að skilja.

Það verður að segjast eins og er að tíminn frá því að það mátti vera ljóst hverjum manni að bandarískur her mundi fyrr eða síðar hverfa frá landinu hefur verið illa notaður.

Það er undarlegt að lesa það — ég vil ekki segja fyndið — það er undarlegt að lesa það í stefnuræðu forsætisráðherra sem flutt var í gærkvöldi þar sem segir, með leyfi forseta:

„Óhætt er að segja að ákvörðun Bandaríkjamanna um að loka varnarstöðinni hafi komið á óvart.“

Ja, það er ekki von að menn hafi undirbúið sig vel ef svo er að þetta hafi komið ríkisstjórninni bullandi á óvart. Þeir voru bara grunlausir, grandalausir. Um hvað er umræðan búin að standa frá því upp úr 1990, í 15 ár, annað en þetta? Veruleikinn er hins vegar sá að afneitun stjórnvalda, að tilburðir ríkisstjórnarinnar allt frá fyrstu dögum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar 1991 og samningum við herinn 1994 á grundvelli fyrri bókunarinnar af tveimur sem gerð var um herþoturnar fjórar, tilburðir stjórnvalda til að reyna að ríghalda í óbreytt eða sem minnst breytt ástand hafa valdið því að menn hafa ekkert notað tímann. Auðvitað er það stórfurðulegt að menn skuli vakna upp við vondan draum á miðju sumri 2006 og átta sig á því að Bandaríkjamenn eiga allan búnað sem þarf til að reka Keflavíkurflugvöll, til að reka aðalmillilandaflugvöll þjóðarinnar, mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar og skuli vera á hnjánum gagnvart Bandaríkjamönnum bara til þess að flugvöllurinn loki ekki þegar þeir fara að slökkva á draslinu og taka það niður og fara með það, aðflugsljós, aðflugsbúnað, aðflugsratsjár og hvað það nú er. Er það ekki undarlegt að menn skuli ekki fyrir löngu t.d. vera búnir að takast á við þennan þátt málsins og leysa hann eða þetta með mengunina? Er það ekki undarlegt að menn skuli þurfa að byggja aðallega á gögnum frá Bandaríkjamönnum sjálfum um það hve mikið þeir hafi mengað á Íslandi og treysta á að þeir hafi rannsakað það með hlutlægum hætti?

Undanfarin mörg ár hefur sá sem hér stendur af og til flutt tillögur á Alþingi, tvenns konar tillögur, um að tekið væri á þessum málum. Þar er annars vegar um að ræða tillögu til þingsályktunar um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins. Auðvitað stæðum við allt öðruvísi og miklu betur að vígi ef við hefðum notað tímann undanfarin mörg ár til þess að ræða við Bandaríkjamenn ekki um hvort þetta gerðist að þeir færu, heldur hvernig það gerðist og hvernig við tækjum yfir, á grundvelli skipulagðrar áætlunar, rekstur Keflavíkurflugvallar og hann færðist alfarið á okkar hendur.

Sama gildir um mengunina. Ég hef af og til flutt tillögur til þingsályktunar um rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu og að hún tæki ekki bara til Miðnesheiðar heldur allra svæða sem erlend herseta hefur mengað hér á landi, bæði hvað varðar mengunarþættina sem slíka, þ.e. að rannsökuð yrði grunnvatnsmengun, jarðvegsmengun, frágangur spilliefna og sorphauga og önnur umhverfishætta, og líka hin lagalega eða réttarfarslega hlið málsins þannig að Íslendingar vissu hvar þeir stæðu gagnvart því að gera kröfur á hendur Bandaríkjamönnum og láta þá axla sína ábyrgð samkvæmt ýtrustu mögulegri stöðu okkar, lagalegri og pólitískri.

Auðvitað hafa hæstv. ráðherrar neyðst til að viðurkenna að þessi mál voru komin í hið herfilegasta óefni, samningsstaða Íslands meira og minna hrunin og tíminn verið ákaflega illa notaður. Þess vegna er það samkomulag eða þau samkomulög svo aum sem raun ber vitni sem nú eru borin á okkar borð. Langalvarlegasti ágalli samkomulagsins um yfirtöku mannvirkja er að mínu mati sá að Bandaríkjamenn eru leystir undan ábyrgð á mengun. Það, fyrir utan kannski framkomuna við starfsmenn sem þeim líðst að skilja eftir án eðlilegra starfslokasamninga o.s.frv., er langalvarlegasti ágalli málsins að mínu mati.

Varðandi hið pólitíska samkomulag er ég og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði andvíg því að halda þeim samskiptum áfram við Bandaríkjamenn á þeim grunni sem þar er gert. Það er engin ástæða til þess eins og komið er að hafa varnarsamninginn í gildi, honum á auðvitað að segja upp, og þá ber svo við að sá sem hér stendur er loksins orðinn sammála Davíð Oddssyni. Það er alveg fráleitt við þessar aðstæður að við séum að skuldbinda okkur til þess að láta Bandaríkjamenn ganga hér að aðstöðu eins og þeim sýnist inn í framtíðina. Hvaða sýndarmennska er það að þeir komi hér einu sinni á ári og valdi ónæði og truflunum með heræfingum? Auðvitað ættum við að vera því fegnastir að vera lausir við slíkt brölt, slíka peningasóun og slíka óværu úr okkar landi.

Í framhaldinu á Ísland auðvitað að taka sér nýja stöðu, óháða stöðu utan hernaðarbandalaga og byggja sína stöðu meðal þjóðanna á slíkum grunni. Við eigum í raun og veru enga samleið með hernaðarstórveldinu Bandaríkjunum, við smáþjóð, vopnlaus þjóð með okkar friðararfleifð. Við eigum að vera stolt af því að vera orðin á nýjan leik herlaus, óvígbúin þjóð. Við getum tekið okkur þar til að mynda fordæmi Álandseyja til fyrirmyndar, sem eru óvígbúið svæði, „demilitíserað“ svæði á grundvelli alþjóðlegs samkomulags sem nágrannaríki þess hafa skuldbundið sig til að virða. Við eigum að vera stolt af því að hafa ekki her eins og Kostaríka sem lagði sinn her niður 1949. Hvernig hefur það gefist þeim? Jú, það er almannarómur að þeir hafi búið við mun meiri stöðugleika og öryggi en nágrannaríkin sem hafa her, m.a. vegna þess að sá her hefur reynst þeim oft og tíðum mesta ógnin. Panama fylgdi fordæmi Kostaríka 1990 og lagði niður sinn her þannig að þruglið um það að öll lönd þurfi að hafa her og halda uppi hervörnum stenst auðvitað ekki skoðun.

Í framhaldinu eigum við að friðlýsa Ísland. Við eigum að friðlýsa íslenskt land, íslenska lofthelgi og íslenska lögsögu. Við eigum að banna þar umferð kjarnorkuknúinna farartækja bæði af friðarpólitískum ástæðum og umhverfisástæðum. Við eigum að meina öðrum ríkjum að koma með vígtól hér inn í lögsöguna eftir því sem við frekast höfum stöðu til á grundvelli þjóðarréttarins og við getum þar m.a. vísað í alþjóðahafréttarsamninginn og skyldur þjóða til að vernda lögsögu sína og bægja mengunarhættu frá.

Verkefnin sem við núna þurfum að takast á við eru öll borgaralegs eðlis og þau eru öll þess eðlis að okkur Íslendingum er engin vorkunn að leysa þau. Brottför hersins er gleðileg sem slík en hún er líka gleðileg vegna þess að hún felur í sér ýmis tækifæri til að sætta þjóðina á þessu svæði til þess að nota þá aðstöðu, það landsvæði og þá aðstöðu og þá möguleika sem núna er hægt að leysa yfir í borgaraleg afnot við Keflavíkurflugvöll, og þó fyrr hefði verið, og byggja þar upp aðra atvinnukosti í stað brottfarar hersins. Okkur er að sjálfsögðu engin vorkunn að reka okkar meginmillilandaflugvöll sjálf og bera kostnaðinn af því enda skilar hann miklum tekjum og er mjög nálægt því eða mun verða mjög nálægt því á komandi árum með vaxandi borgaralegri umferð að vera sjálfbær, þ.e. ef hann fær að njóta allra þeirra tekna sem lendingar- og þjónustugjöld skila þá getur Keflavíkurflugvöllur í aðalatriðum séð um sig sjálfur eins og eðlilegt er. Okkur er að sjálfsögðu engin vorkunn að gera þær ráðstafanir sem þarf og lúta að löggæslu og landamæraeftirliti og öðrum slíkum þáttum. Það eru borgaralegar ráðstafanir og engin þörf á neinu öðru. Okkur er engin vorkunn að takast á við það að efla björgunarstarfsemi Landhelgisgæslunnar og sjá sómasamlega fyrir því, þar á meðal að staðsetja eina björgunarþyrlu á norðan- eða norðaustanverðu landinu, a.m.k. yfir veturinn, til að hafa fullnægjandi öryggi að öllu leyti í þessum efnum. Ráðstafanirnar sem við þurfum að gera snúa að okkur sjálfum, þær eru allar í okkar valdi og þær eru allar vel viðráðanlegar.

Að sjálfsögðu er eðlilegt að fara yfir skipulag almannavarnamála, að bæta starfsskilyrði björgunarsveita, að gera nauðsynlegar ráðstafanir hvað varðar öryggi fjarskipta og aðra slíka hluti sem eðlilegt er að fara yfir við þessar aðstæður. Það er ekkert nema tilhlökkunarefni ef menn ganga til verks með því hugarfari að þetta séu verkefni sem við ætlum okkur að leysa og standa myndarlega að og fela ekki síður í sér tækifæri heldur en að líta á þetta sem einhver vandamál.