133. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2006.

réttur nefndar til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál.

27. mál
[18:18]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er nauðsynlegt að flytja þetta frumvarp til að ná fram þeim pólitísku áformum sem Alþingi mótaði í vor með þingsályktunartillögunni að gera þau gögn sem þarna um ræðir aðgengileg um öryggismál Íslands á kaldastríðsárunum. Nefndin þarf auðvitað að kanna umfang þeirra gagna sem þarna um ræðir. Komast að því hvar þau eru hugsanlega vistuð og önnur þau atriði sem snúa að þessu máli. Gögnin verði þá síðan hugsanlega, eins og kemur fram í greinargerðinni, vistuð í sérstakri deild í Þjóðskjalasafninu og þau verði gerð sem aðgengilegust fyrir fræðimenn og aðra þá sem þurfa að málinu að koma.

En það ber auðvitað að taka sérstaklega fram að þarna hafa hugsanlega verið skráðar upplýsingar um einkalíf fólks og þess vegna er mjög nauðsynlegt að nefndin geti farið í gegnum umrædd gögn og kannað hvort einhverjar slíkar upplýsingar eru þar fyrir hendi. Við verðum að gæta þess að friðhelgi einkalífsins sé varðveitt.

Við getum verið sammála um nauðsyn þess að hraða málinu og vegna þeirrar umræðu sem uppi hefur verið í þjóðfélaginu er nauðsynlegt að hægt verði að skoða öll þau gögn sem þarna um ræðir. En ég legg enn og aftur áherslu á að það verður auðvitað að undanskilja þau gögn sem snúa að einkalífi fólks.

Ég vil þakka stjórnarandstöðunni fyrir hversu vel hún brást við þessu máli og hefur verið minnst á það hér í salnum að ástæða sé til þess og ég geri það hér með.