133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

vaxandi ójöfnuður á Íslandi.

[10:18]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir að koma með þetta mál um misskiptingu lífsgæðanna hér til umræðu í upphafi þings.

Við búum því miður ekki lengur í stéttlausu þjóðfélagi þar sem aðstæður fólks eru svipaðar heldur er að myndast gjá milli þjóðfélagshópa þar sem fréttir berast af milljóna- eða milljarðahagnaði sumra á meðan aðrir eiga vart til hnífs og skeiðar. Launaumræðan í sumar í kjölfar álagningar skatta og birting þeirra upplýsinga skerpti enn á umræðunni enda ljóst að ofurlaun eru nú þekkt í fyrirtækjum sem þjónusta almenning, t.d. í bankastörfum. Á sama tíma greiða lántakendur hærri vexti og önnur gjöld en annars staðar þekkist. Bilið milli ríkra og fátækra eykst stöðugt hér á landi og raunar er það svo að þeir mörgu sem eiga erfitt uppdráttar eru ekki einungis þeir sem háðir eru lífeyri til framfærslu. Margt venjulegt fólk er á svo lágum launum að ekkert má út af bera án þess að fjárhagurinn sligist.

Skattastefna ríkisstjórnarinnar forgangsraðar þeim tekjuhærri til hagsbóta. Láglaunafólk, aldraðir og öryrkjar greiða nú skatta þótt laun, bætur og lífeyrir dugi ekki til lágmarksframfærslu. Harkan á vinnumarkaði virðist vaxa og kröfur um langan vinnudag. Atvinnuþátttaka öryrkja og aldraðra og annars fólks sem getur ekki unnið fullan vinnudag gæti minnkað vegna harðari vinnukrafna.

Fjölgun öryrkja á undanförnum árum getur m.a. endurspeglað þá staðreynd að kröfur atvinnurekenda hafa orðið stífari og að harðnandi samkeppni á atvinnumarkaði — nú einnig vegna frjáls flæðis erlends vinnuafls — bitnar ávallt fyrst á þeim hópi, öryrkjum og öldruðum. Það er því mikil nauðsyn að vera með hvetjandi aðgerðir til atvinnuþátttöku þessara hópa eins og stjórnarandstaðan hefur lagt til í sameiginlegum tillögum sínum í velferðarmálum nú í upphafi þings. Kjósendur þurfa skýra valkosti.