133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:09]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Ég held, frú forseti, að á þeirri umræðu sem fram fer um svokallaða lausagöngu, eins og hv. þingmaður orðar það, í þeirri umræðu sem fer fram milli ráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar sé raunverulega bitamunur en ekki fjár. Ekki hef ég heyrt um það talað að ekki eigi að vera heimilt að færa heimildir á milli ára eða þá að stofnanir eigi ekki að geta bætt upp halla með fjárveitingum næsta árs. Eins og ég segi er bitamunur en ekki fjár í þessu tilfelli.

Hins vegar, varðandi áætlanirnar, er það auðvitað framkvæmd fjárlaga og niðurstaðan sem segir til um hvort áætlanirnar voru nægilega nákvæmar og nægilega góðar. Ég held að þeim tíma sem hv. þm. eyðir núna í að leita að merkjum um bætta áætlunargerð í fjárlagafrumvarpinu sé kannski ekki sérstaklega vel varið. Það er ekki fyrr en síðar sem það kemur í ljós og verður gaman að fylgjast með því þegar hann fer að skoða það.