133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:16]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar var ég kominn í fyrra andsvari mínu að ég vildi benda á að íslenskir þegnar borga mun minna til heilbrigðisþjónustu en aðrir þegnar Evrópu. Ég vil taka það fram að Íslendingar leggja nú hvað mest til skólamála af öllum ríkjum Evrópu af opinberu fé. Þetta verða menn að muna.

Ég hef áhyggjur af verðtryggingu fjárskuldbindinga. Það hafa Íslendingar haft, allir sem einn, mjög lengi vegna þess að við erum í ákaflega erfiðri stöðu, að vera nærri því með þrenns konar mynt, þ.e. óverðtryggðu krónuna, verðtryggðu krónuna og svo einhverja körfu af gjaldmiðli. Þetta er ákaflega erfitt fyrir okkur og ég held að menn séu almennt að komast að þeirri niðurstöðu að við verðum að gera eitthvað í málinu. Við getum ekki hlaupið svona á milli vegna þess að verðtryggingin er ákaflega slæm, ekki vegna þess að hún mæli ekki rétt heldur hitt að með henni virka vextirnir ekki, þeir bíta ekki eins og hjá öðrum þjóðum. Við eigum í miklum erfiðleikum með þetta. Hágengið hefur valdið okkur vandræðum og það er ástæða til að gera það að umræðuefni, kannski ekki við þessa umræðu heldur fljótlega, hvað við eigum að gera í peningastjórninni. Það liggur fyrir, og það er rétt, að það er ágreiningur um það.

Eignarverðbólan mikla sem gekk yfir Bandaríkin og Evrópu, og Ísland þar með, var ekki á vegum þessarar ríkisstjórnar né nokkurrar annarrar ríkisstjórnar í Vestur-Evrópu. Við réðum ekkert við þetta. Það hefði verið alveg sama hver hefði setið við stjórnvölinn, þeir hefðu ekki ráðið við það heldur. En það er alvarlegt og við verðum að átta okkur á því að hún hefur siglt fram hjá. Hvaða afleiðingar hefur það? Það hefur þær afleiðingar að við höfum ekki áfram veð til að taka svo gríðarlegt fé inn í landið eins og við höfum gert undanfarin ár. Þetta er vandamál. Við skulum viðurkenna það og standa saman að því enda veit ég ekki til þess að menn hafi á reiðum höndum ráð við þessu.