133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:13]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel rétt að upplýsa hv. þingmann um þennan niðurskurð á framlögum til íþróttamála. Þetta er gamalkunnugt hérna. Ástæðan fyrir þessu er svona dálítil innri spenna sem lengi hefur verið milli fjárlaganefndar og nokkurra ráðuneyta. Ég bið því hv. þingmann að vera nú alveg rólegan þar til við förum í gegnum 2. umr. fjárlaga og sjáum þá hvernig þetta mál lítur út.

En þannig er þessum málum varið að ráðuneytin hafa oft tilhneigingu til að láta framlög sem hafa komið frá fjárlaganefnd hverfa aftur. En þetta er ekki alvarlegur ágreiningur og ég bið hann að vera rólegan og hafa ekki áhyggjur af málinu. Við ræðum þetta þá við 2. umr. fjárlaga.