133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:54]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt að þessi málaflokkur krefst samstarfs margra aðila og margra ráðuneyta. Ég vil nefna af því tilefni að kynningin í gær á þeim úrræðum sem félagsmálaráðuneytið hefur forgang um er unnin í nefnd sem heilbrigðisráðuneytið á fulltrúa í — þegar við útskrifum fólk af Landspítala – háskólasjúkrahúsi yfir í sjálfstæða búsetu tengist spítalinn beint við þessi nýju úrræði. Þannig að þessi ráðuneyti tengjast í þeirri vinnu.

Hér var komið inn á SÁÁ. Ég vil nú upplýsa hv. þm. Kristján L. Möller, af því ég heyri að hann hefur rangar upplýsingar, um að við höfum verið að skoða málefni SÁÁ. Það er rétt að samningurinn rann út fyrir um ári. Samt er unnið eftir gamla samningnum. Það er ekkert uppnám í þessum málaflokki. Við höfum hins vegar fundað með SÁÁ. Á fundi þann 4. október voru þrír af hálfu ráðuneytisins viðstaddir og fimm frá SÁÁ. Þannig að það er verið að ræða við SÁÁ um áframhaldandi samning.

Ef menn fletta upp í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur í ljós að SÁÁ fær um 579,1 millj. í rekstur sinn og verið er að hækka þá upphæð um tæpar 30 millj. að raungildi. Þar er bæði um að ræða viðhaldskostnað við húsnæði, eflingu göngudeildar og lyfjakostnað.

En ég tel mjög mikilvægt í þessu sambandi að taka undir það sem hér kom fram varðandi lyfin af því þau hafa verið til mikið til umræðu í fjölmiðlum upp á síðkastið. Það er nauðsynlegt að nota lyf. Ég vil benda á að ef við notuðum ekki lyf væru líklega um 600 manns í langtímavistun á sjúkrahúsi. En þeir eru nú í kringum 50 til 60. Þannig að það er nauðsynlegt að nota lyf.

Að lokum vil ég í tilefni dagsins þakka þeim sem hafa hjálpað okkur að vinna gegn fordómum. Það eru notendurnir sjálfir. Ef ekki hefði verið fyrir kjark þeirra og þor að stíga fram værum við ekki komin eins langt í málaflokknum og við erum þó komin í dag.