133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:14]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að vera ánægður með sterkari afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári en áætlanir gerðu ráð fyrir og yfir höfuð með sterka stöðu ríkissjóðs því þar sem ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum lagt ríka áherslu á að hækka skatta, einkum á lág- og meðaltekjufólk eins og við þekkjum, sló Íslandsmet í fyrra og innheimtir trúlega aldrei meira af sköttum en í ár, þá er mikilvægt að það skili sér þó a.m.k. í jákvæðri afkomu ríkissjóðs.

Það þarf sterk bein til að þola góða daga og það er þess vegna full ástæða til þess að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um viðbrögð hans við skýrslu Ríkisendurskoðunar sem var kynnt meðan þingið var í sumarleyfi, um yfirlýsingar ríkisendurskoðanda um agaleysi í ríkisfjármálum og algerlega óviðunandi framgang í aðhaldi og eftirliti með ríkisfjármálum ár eftir ár eftir ár. Einnig er ástæða til að spyrja til hvaða aðgerða hann hyggist grípa í því efni því þetta fjáraukalagafrumvarp endurspeglar einfaldlega að hér eru enn og aftur lausatök á útgjaldahliðinni, stofnunum leyft að fara fram úr, ekki bara stöku stofnun, ekki tugum stofnana heldur 200 fjárlagaliðum, hygg ég af liðlega 400, og 100 þeirra eru viðvarandi aftur og aftur að fara fram úr heimildum sínum. Við hljótum að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hyggist, vegna skýrslu ríkisendurskoðanda, grípa til einhverra sérstakra aðgerða til þess að hafa það aðhald og aga í ríkisfjármálum sem nauðsynlegt er og menn hafa greinilega algerlega misst tökin á í þeirri sterku tekjustöðu ríkissjóðs sem menn hafa í dag.