133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég virði það að hv. þm. er nýkominn inn sem varamaður. En þar sem hann spurði um hvernig ríkissjóður ætlaði að standa straum af þeim nýju verkefnum sem hann svo sannarlega er að taka á sig þessa dagana, eða fyrirhugað er að hann taki á sig, bæði gagnvart eldri borgurum og í skattalækkunum, þá eru forsendurnar fyrir því þær að ríkissjóður verði samkvæmt langtímaáætluninni áfram rekinn í plús yfir hagsveifluna.

Það þarf því ekkert að koma til sölu eigna eða til þess að ríkissjóður verði rekinn í mínus til að standa undir þeim fyrirætlunum sem ákvarðaðar hafa verið eða kynntar hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar.