133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

sameignarfélög.

79. mál
[17:38]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka spurningar og athugasemdir hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Ég hygg að þau atriði sem hann nefndi leiði að mestu leyti af því persónulega sambandi sem hlýtur að vera í sameignarfélagi. Þar er meginreglan t.d. sú að ákvörðun sé tekin af öllum saman. Það er gert ráð fyrir því að sé í félagssamningi heimilt að taka ákvörðun með meiri hluta — það er að vísu frávíkjanleg regla — þá sé það meiri hluti þeirra einstaklinga eða fulltrúa lögaðila sem eru í félaginu. Þessi ákvæði um ábyrgð sem hann nefndi leiðir held ég fyrst og fremst af þessum einkennum, að sameignarfélagið er fremur persónulegt, eðlisskylt einkafyrirtæki eða fjölskyldufyrirtæki enda eru sameignarfélög yfirleitt frekar lítil.

Á Íslandi voru ýmis fyrirtæki með samlagsformi, sem segja má að sé svolítið svipað sameignarfélögum, sem voru nokkuð stór, t.d. í afurðasölu og sjávarútvegi á sínum tíma. En þeim hefur verið breytt síðan vegna þess að þau voru kannski orðin of stór fyrir þessar ábyrgðaraðstæður. Ég ætla ekki að fullyrða um það en ég hef heyrt þá skýringu.

Sama á við varðandi samkeppnisbannið en ég vek athygli á því að það tengist hinni beinu ótakmörkuðu ábyrgð og að aðrir aðilar verði að gefa viðkomandi einstaklingi eða aðila heimild til að keppa. Ég skildi greinina þannig að hún ætti við beina samkeppni en ekki endilega aðild að öðru fyrirtæki.