133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[13:33]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Vímuefnabölið er eitt stærsta og þjóðfélagslega dýrasta vandamál sem við eigum við að glíma á Íslandi. Varla er nokkur einasta fjölskylda til í landinu sem hefur ekki orðið fyrir því að eiturlyf eða áfengissýki hafi valdið miklum félagslegum vandamálum sem bitna harkalega á lífi neytendanna sjálfra eða aðstandenda þeirra.

Félagslegu vandamálin sem fylgja fíkniefnaneyslu og áfengissýki eru þess eðlis að huga þarf að þeim frekar en nú er gert. Því spyr ég hæstv. félagsmálaráðherra: Með hvaða hætti hyggur hann og ráðuneyti hans á aukin viðbrögð í þessum málum?

Okkur er öllum ljóst að sá félagslegi vandi sem fylgir misnotkun fíkniefna og áfengis hverfur ekki úr þjóðfélagi okkar næstu áratugi. Þrátt fyrir mjög merkilegt og ágætt starf samtaka eins og SÁÁ og fleiri í áratugi að forvarna- og meðferðarmálum vex þörfin. Og þrátt fyrir að við setjum fjármuni í forvarnir og meðferð, sem varið er af opinberu fé, er ljóst að vandinn sem snýr að meðferð sjúkra neytenda vímuefna er ekki að dragast saman. Líkur eru á því að neyslan aukist og meðferðarvandinn samfara því fari vaxandi.

Dómsmálaráðuneytið fer með mál sem snúa að smyglleiðum ólöglegra fíkniefna, afbrotum, refsingum og fangelsismálum. Fangelsisvistun fíkniefnaneytenda getur líka orðið mikið félagslegt vandamál og er vissulega áhugavert að skoða önnur meðferðarúrræði samfara vistun sem falla betur að þeim markmiðum að gera viðkomandi neytanda fíkniefna eða áfengis á ný heilbrigðan þjóðfélagsþegn. Slík breyting í vistunar- og meðferðarmálum kallar á sameiginlega stefnumótun og aðkomu félagsmálaráðuneytisins að þeim úrræðum sem snúa að neytandanum sem dæmdur var, fjölskyldu hans og vinum.

Hvernig lítur hæstv. ráðherra félagsmála til þess að ráðuneyti hans komi að þessari hlið félagslegra vandamála og er sú vinna e.t.v. hafin? Ég vil í þessu sambandi lýsa þeirri skoðun minni að mjög stórar einingar fangelsa þar sem öll mismunandi vistunar- og meðferðarúrræði eru til staðar eru ekki heppilegasta lausnin til framtíðar. Ég tel að minni einingar og fjölskylduvænni leiðir á félagslegu sviði skili betri og varanlegri árangri til endurbata einstaklinga en nú er. Þess vegna eru stofnanir víða um land sem ekki væru of stórar, t.d. í átt við stærð Kvíabryggju, betri og fjölskylduvænni kostur. Hvaða afstöðu hefur hæstv. ráðherra til þessara sjónarmiða um stærð, gerð og fjölda úrræða á mismunandi stofnunum?

Heilbrigðisráðuneytið kemur einna mest að ákvörðunum í meðferðarmálum á sjúkrastofnunum sem takast á við vímuefnavandann og að forvörnum samfara þeim málum. Samkvæmt skýrslu um þjónustu fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur, sem heilbrigðisráðherra lagði fram á Alþingi, var m.a. fjallað um forvarnir og fjölskylduþjónustu. Ýmsar ábendingar og tillögur voru í skýrslunni sem birtist í mars 2005.

Í henni segir, með leyfi forseta:

„Bent er á að lagasetning, fjármögnun, árangursmat og gæðakröfur þarfnist endurskoðunar. Þá sé of mikil áhersla lögð á innlagnir á stofnanir, en of lítil að sama skapi á vægari meðferðarúrræði, heilsugæslu og göngudeildarþjónustu, svo dæmi séu tekin.“

Í skýrslunni segir einnig, með leyfi forseta:

„Mestu skiptir að skýrslan, hugmyndirnar og umræðurnar um málefnið verði til þess að skapa forsendur til að ná á Alþingi sem víðtækastri sátt um stefnumótun í málaflokknum.“

Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að samstarfsnefnd á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis annars vegar og félagsmálaráðuneytis hins vegar endurskoði lög sem varða þjónustu fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur og leggi til breytingar. ... Lagt er til að fjárveitingar til áfengis- og vímuefnameðferðar verði bundnar við málaflokkinn en ekki stofnanir.“

Varðandi þjónustu um allt land segir í lokamálsgrein, með leyfi forseta:

„Einnig kæmi til greina að kanna grundvöll fyrir heimaþjónustu við afeitrun og stofnun lítilla meðferðarheimila í landshlutum þar sem fólki gæfist tækifæri til að ljúka meðferð í heimabyggð sinni. Kanna mætti möguleika á að auka og efla þjónustu á vegum sveitarfélaga á slíkum heimilum.“

Um forvarnir og fjölskylduþjónustu segir:

„Lagt er til að heilsugæslan verði efld.“

Þarna er vikið að ýmsu áhugaverðu sem e.t.v. gæti horft til betri vegar. Mér er hins vegar ekki kunnugt um eftirfylgni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í þessum málum. Á vef heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins fann ég mikið af fræðsluefni en ekki nýja stefnumótun. Ég man það hins vegar frá sl. sumri að hæstv. félagsmálaráðherra sendi frá sér frétt um að hann legði ríka áherslu á forvarnir. Í þeirri frétt sagði að ríkisstjórnin hefði falið félagsmálaráðherra að leiða samstarf þeirra sem starfa að forvörnum og móta heildstæða stefnu í málaflokknum.

Lokaspurning mín er því: Hvað líður verkinu og hvaða afstöðu hefur ráðherra til þeirra viðhorfa sem ég hef rætt?