133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

vímuefnavandinn.

[14:01]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þingmönnum fyrir þátttöku í þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf sem mér fundust að vísu ekki fullnægjandi vegna þess að ég spurði hæstv. ráðherra: Hvaða afstöðu hefur ráðherrann til þeirra viðhorfa sem ég hef rætt? Ég var ekkert sérstaklega að spyrja hvort hann hefði tillögur í dómsmálum eða tillögur í heilbrigðismálum heldur um afstöðu hans til þess verkefnis sem honum hefur verið falið af ríkisstjórninni, þ.e. að leiða þetta verk. Þess vegna fannst mér forvitnilegt að heyra viðhorf hans sem mér fundust ekki koma nægilega fram í svari hans þó að ég geti tekið undir mjög margt sem hæstv. ráðherra sagði varðandi stefnumótun og að vissulega eru forvarnir langtímaverkefni, hæstv. forseti.

Í lok málsins vil ég vekja athygli á því að í skýrslu SÁÁ segir, með leyfi forseta:

„SÁÁ getur gert miklu betur ef aukinn stuðningur fæst.“

Síðan er talið upp, með leyfi forseta:

„Viðurkenning á auknum kostnaði vegna þess að SÁÁ hefur óhjákvæmilega þurft að auka bráðaþjónustu, hefur ekki fengist. Samþykki fyrir fjárveitingu til eðlilegrar sálfræði- og geðlæknisþjónustu á Sjúkrahúsinu Vogi fæst ekki. Með öðrum orðum, væntingar til stjórnvalda eru of miklar og ekki hefur tekist að vinna því fylgi meðal ráðamanna að veita bestu áfengis- og vímuefnameðferð sem völ er á. Þekking og tækifæri til að veita mun betri þjónustu eru til staðar en fjármunir fást ekki.“

Þetta er auðvitað alvarleg framsetning sem birtist í skýrslu SÁÁ og bendir til þess að hjá stjórnvöldum skorti á að taka upp virkt samstarf við SÁÁ og tryggja þar fjárveitingar. En ég fagna því að hæstv. félagsmálaráðherra hefur það starf á sinni hendi, að leiða samstarf ráðuneytanna, en það er einfaldlega svo að víða spila saman fjölskyldumálin, heilbrigðismálin, dómsmálin og félagslegi þátturinn í þessu máli.