133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[16:02]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta nú ágæt viðleitni og sýnir ákveðna hreysti og hugrekki af hálfu hv. þingmanns að vera sá eini stjórnarþingmaður sem kemur hér upp til þess að verja gjörðir ríkisstjórnarinnar í málefnum lífeyrisþega, fyrir utan ráðherra sem svaraði mér áðan.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem ég veit að þekkir vel til þessa málaflokks, nokkurra spurninga. Ég vil spyrja hana hvort hún telji það skynsamlegt í tillögum ríkisstjórnarinnar að frítekjumarkið taki ekki gildi fyrr en eftir þrjú eða fjögur ár og þá mjög lítið, 17 þús. kr. árið 2009 og 25 þús. kr. á árinu 2010. Þá er ég að tala um bæði gagnvart lífeyrisþegum af því að hv. þingmaður sagði hér áðan að hún vildi — ég man ekki hvernig hún orðaði það — horfa á það sem fólk getur. Það er einmitt það sem við erum að gera, við viljum skapa öldruðum svigrúm til þess að afla sér atvinnutekna án þess að skerða um leið lífeyristekjur þeirra og þær eru skertar mjög grimmt eins og hv. þingmaður veit. Fólk heldur mjög litlu eftir ef það aflar sér tekna, skammarlega litlu, þetta er skert allt upp í 85%. Ég býst við að slíkar skerðingar þekkist hvergi á byggðu bóli, að svo mikið sé skert ef lífeyrisþegar reyna að sýna af sér smá viðleitni í því að afla sér tekna.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki tilbúin að beita sér fyrir því að þetta frítekjumark verði fært fram þannig að það taki gildi um næstkomandi áramót eins og við leggjum til. Ég veit að aldraðir og öryrkjar leggja á þetta gífurlega mikla áherslu og ég held að það mundi breyta miklu ef stjórnarflokkarnir færu þá leið. Við erum einungis að tala um kannski 200–300 milljónir þegar þetta er að fullu komið til framkvæmda. Þetta er enginn peningur og ef aldraðir nota þetta til að auka atvinnuþátttöku sína mun það skila sér til baka í auknum sköttum.