133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

álit Samkeppniseftirlitsins um búvörulögin.

[15:08]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi upphlaup frá Samfylkingunni eru orðin nokkuð algeng. Sannleikurinn er sá að landbúnaðurinn starfar undir búvörulögum. Það var samþykkt á Alþingi og liggur alveg klárt fyrir. Við vitum hvernig verðlagning á landbúnaðarafurðum hefur gengið fyrir sig. Framlög til landbúnaðar hafa lækkað verulega á undanförnum tíu árum og bændur hafa sannarlega tekið þátt í mikilli hagræðingu og fært miklar fórnir.

Þetta er kannski ekki kerfi sem við ættum að hafa um alla eilífð en það hefur gengið vel núna. Við vitum að það er að koma samkeppni. Það verður mikil samkeppni og Íslendingar verða að standa saman alveg eins og danskir og sænskir bændur eru í einu félagi. Norskir bændur eru í einu félagi. Yfir 90% af þeim sem framleiða eru í þessum félögum. Samt verðum við að tryggja að ef einstaklingar vilja framleiða þá séu þeir ekki beittir ofbeldi. Hafi það gerst verður að skoða það því það var aldrei meiningin að líða ofbeldi gagnvart frjálsri verðmyndun eða frjálsu framtaki.

Við styðjum íslenskan landbúnað. Það er ekkert launungarmál. Það hefur gengið mjög vel. Það er rangt þegar menn segja hvað eftir annað að landbúnaðurinn hamli hér betri lífskjörum Íslendinga. Landbúnaðarvörur eru 5,7% af neysluvísitölu Íslendinga. Þær hafa lækkað verulega og átt verulegan þátt í góðum lífskjörum Íslendinga. Bændur hafa átt sinn þátt í að svo vel hefur tekist til. Við verðum að átta okkur á þessu. Það þýðir ekki að hlaupa upp þótt einhver mistök kunni að hafa orðið hjá Osta- og smjörsölunni, ég veit það ekki. Við skulum bara fara ofan í það. Við eigum ekki að hlaupa frá gildandi samningum um mjólkurvörurnar. Við hlaupum ekki upp til handa og fóta.

Við verðum hins vegar að gera mönnum grein fyrir því að lögin eru ekki til að vernda ofbeldi í einum eða neinum skilningi.