133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum – áhrif Kárahnjúkavirkjunar á efnahagslífið.

[13:36]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að ekki sé hægt að bera þau mál saman sem hér eru til umræðu og það sem gerðist í Noregi og ekki sé hægt þess vegna að búast við því að menn taki sambærilegar ákvarðanir á þessu þingi eins og gert var í norska Stórþinginu vegna mála sem komu þar upp. Ég hef orðið var við að það hefur sætt gagnrýni einhverra að ríkissaksóknari tæki þetta mál fyrir og menn hafa velt því fyrir sér hvort eðlilegt væri að hann fjallaði um mál sem snertu lögregluna. Ég vil rifja það upp að þegar lögreglulögin voru til umræðu árið 1996 sagði hv. þm. Össur Skarphéðinsson m.a., með leyfi forseta:

„Er rétt að lögreglan rannsaki sín eigin brot með þessum hætti? Er ekki betra fyrir alla aðila, bæði þá sem lenda í því að fá slíka kæru á sig og fyrir lögregluliðið í heild að tekið verði með einhverjum hætti öðrum á þessu, t.d. að slík mál yrðu falin forsjá ríkissaksóknaraembættisins sem tæki þá ákvörðun um það hvernig ætti að vinda málunum fram og rannsaka þau til hlítar.“

Síðan var lögum breytt árið 1998 á þann veg að rannsókn í slíkum málum var falin ríkissaksóknara og þá sagði hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir í ræðu á þingi, með leyfi forseta:

„Eins og fram kom hjá framsögumanni nefndarinnar, hv. þm. Árna R. Árnasyni, þá hefur hv. allsherjarnefnd nú þegar brugðist við þeirri gagnrýni sem kom fram á þetta ákvæði frv. með því að leggja til að kæru á hendur lögreglumanni fyrir meint refsivert brot skuli beina til ríkissaksóknara og tel ég þá breytingu til bóta.“

Ég skil ekki þá þingmenn sem sitja hér eða annars staðar og gagnrýna þá málsmeðferð að ríkissaksóknari taki þetta mál til athugunar.