133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum – áhrif Kárahnjúkavirkjunar á efnahagslífið.

[13:42]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er mikill misskilningur ef hæstv. dómsmálaráðherra heldur að einhver sé að efast um að ríkissaksóknari hafi heimild til að fara í þá rannsókn sem hann hefur lýst yfir að hann muni gera. Hann hefur heimildir til þess.

Það sem við erum að segja og er tilefni þessarar umræðu er hins vegar þetta: Sú rannsókn sem beinist að tveimur tilteknum málum er ekki nægileg. Það þarf að leggja spilin á borðið í þessu óþægilega máli. Það hefur komið fram að fyrrverandi utanríkisráðherra hefur með sjálfstæðum hætti gengið úr skugga um að líklega var sími hans hleraður. Málsatvik eru þannig að ríkissaksóknari telur bersýnilega að þar hafi verið um alvarlegt brot að ræða og þess vegna tekur hann það til rannsóknar. Þá má spyrja: Er þá hugsanlegt að brot af þessu tagi séu útbreiddari? Þarf ekki að rannsaka það, frú forseti? Það er það sem við erum að leggja áherslu á, að þetta mál verður ekki afgreitt með einhverri rannsókn ríkissaksóknara.

Það besta sem menn gera er að nálgast þetta í sáttarhug og frá sjónarhóli fyrirgefningarinnar alveg eins og Norðmenn gerðu. Það gerum við með því að þingið samþykki nefnd sem í sitja ekki alþingismenn eða stjórnmálamenn heldur sérfræðingar sem eru valdir með samþykki Alþingis til að komast til botns í málinu og því verður að fylgja lagasetning. Hún á að miðast að þeim að þeir sem hugsanlega kunna að hafa gerst brotlegir við lög séu fyrir fram gefnar upp sakir, ella er ekki hægt að gera ráð fyrir því að nokkur maður leggi sig og framtíð sína í þá hættu að koma og bera vitni um að hann hafi brotið lög. Málið snýst um það og þess vegna er ekki hægt að fara þá leið til að hreinsa málið.

Þetta gerðu Norðmenn þar sem kalda stríðið skildi eftir sig jafnmikil svöðusár og það gerði hér á landi. Ég hvet þingmenn til að íhuga það að fara þessa leið í nafni sátta og friðar.