133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum – áhrif Kárahnjúkavirkjunar á efnahagslífið.

[13:49]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði eitthvað á þá leið að mál hér á landi væru engan veginn sambærileg við það sem gerðist í Noregi. Ég er ekki alveg sammála því áliti hans. Ég hef verið að skoða og kynna mér söguna í Noregi og hygg að ansi margt af því sem gerðist í Noregi hafi hugsanlega einnig gerst á Íslandi.

Stundaðar voru mjög umfangsmiklar njósnir á fólki í Noregi sem var lengst til vinstri í norskum stjórnmálum um margra ára skeið. Hjá norska verkamannaflokknum fundust m.a. skrár yfir tíu þúsund manns sem norski verkamannaflokkurinn hafði safnað um fólk, um kommúnista í verkalýðshreyfingunni, í stjórnmálasamtökum og öðrum félagasamtökum.

Ég held að það væri okkur öllum fyrir bestu að þetta yrði rannsakað af þinginu eins og Norðmenn gerðu á sínum tíma. Þeir rannsökuðu þetta, skipuðu nefnd, Lund-nefndina, og hún rannsakaði þessi mál allar götur fram til þess tíma að hún skilaði af sér árið 1996. Við ættum að gera það sama hér á Íslandi, rannsaka þetta allt fram á þessa stundu og sjá hvað kemur í ljós. Það er að sjálfsögðu óafsakanlegt ef einhverjir hafa stundað hleranir hérna, en í ljósi reynslu frænda okkar í Noregi tel ég fulla ástæðu til þess að gera þetta.

Í rannsókninni í Noregi kom nefnilega fram að mynduð voru samtök, sambönd við leyniþjónustur í öðrum ríkjum sem slógu sér saman og skiptust á upplýsingum. Það má vel vera að hér á landi hafi verið safnað upplýsingum um einhverja einstaklinga sem kannski síðar meir eiga eftir að finnast í skjalasöfnum í Noregi, Danmörku, Bandaríkjunum, Þýskalandi eða öðrum löndum. Ég vil ekki að við, íslenska þjóðin, lendum í þeirri stöðu að frétta af þessum njósnum utan frá. Við eigum að taka til í okkar eigin ranni. Við eigum að takast á við fortíðina, við eigum að gera þessi mál upp og síðan eigum við að koma þessum öryggismálum í fastan farveg, m.a. með tilliti til þess hvernig Norðmenn hafa hagað sínum málum. Þeir hafa gengið mjög vel frá þeim eftir að þetta var hreinsað út af borðinu og við eigum að fylgja því fordæmi.