133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum.

[13:57]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vill láta það koma skýrt fram að samkvæmt þingsköpum eru ætlaðar 20 mínútur til umræðu um störf þingsins, eins og fram kemur í lok 50. gr. þingskapa. Í þessu tilviki var liðin 21 mínúta þegar hæstv. dómsmálaráðherra hafði lokið máli sínu. Hver hv. þingmaður hefur tvær mínútur. Ef tímanum er ekki lokið er næsta ræðumanni á dagskrá gefið orðið.

Nýlega hafa komið upp atvik í þinginu þar sem hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa kvartað yfir því að hafa ekki komist að. Skýringin er sú að tíminn er ekki lengri. Reynt er að miða við að um tíu hv. þingmenn komist að í þessari umræðu, þeir hafa tvær mínútur á mann. Þetta er því auðvelt og einfalt reikningsdæmi og ég hygg að hv. þingmönnum eigi að vera fullkunnugt um þessi ákvæði þingskapa.