133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:14]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson veit að í öllum stjórnunarfræðum, alveg sama hvar á er litið, er gert ráð fyrir því að skilvirkasta stjórnunin sé þar sem einn stjórnandi ber hina faglegu ábyrgð. Þar sem stjórnendur eru margir og ábyrgðin óljós — það kann aldrei góðri lukku að stýra. Í öllum kenningum í stjórnunarfræðum er einhugur um það. Það er það sem frumvarpið felur í sér hvað varðar stjórnunarstrúktúrinn. (Gripið fram í.)

Um nefskattinn verður örugglega mikið deilt. Ég minni á að í umræðum, ekki síst á hv. Alþingi, um hið óvinsæla innheimtukerfi sem hefur verið við lýði hefur á liðnum árum úr öllum flokkum, hygg ég, heyrst sú rödd að frekar eigi að taka upp nefskatt en að halda uppi hinu dýra og óvinsæla … (Gripið fram í.) — Við stöndum að þessu frumvarpi og það svarar (Forseti hringir.) þínum spurningum, hv. þingmaður.