133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:51]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður lýsir því yfir að hann tekur undir með mér, að það þurfi að veita einkareknum fjölmiðlum á ljósvakamarkaði aukið svigrúm með því að takmarka hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.

Ég held hins vegar öfugt við hv. þingmann að um það ríki nokkur pólitísk sátt. Mér hefur heyrst það í umræðum um þetta mál í þinginu. Því spyr ég hv. þingmann: Af hverju beitir hann sér ekki fyrir því sem formaður menntamálanefndar og einn af höfundum og helstu arkitektum frumvarpsins sem við ræðum hér í þriðja sinn í breyttri mynd? Af hverju beitir hann sér ekki fyrir því? Fyrst það er ekki markmiðið að selja Ríkisútvarpið heldur halda úti ríkisreknum fjölmiðli á ljósvakamarkaði hvaða pólitíska réttlæting er fyrir því, að hans mati, að ríkið geri það um leið og það heldur óskertri hlutdeild á auglýsingamarkaði og geri, það sem (Forseti hringir.) forustumaður 365 ljósvakamiðla kallaði í fyrra, aðför (Forseti hringir.) að ljósvakamiðlum á Íslandi?