133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

störf hjá Ratsjárstofnun.

181. mál
[13:41]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í nauðvörn byggðanna skiptir hvert starf sem lagt er niður eða glatast gífurlega miklu máli, í þeirri nauðvörn sem núverandi ríkisstjórn hefur rekið landsbyggðina út í. Bæði kvótakerfið í sjávarútvegi og hin meinta byggðastefna stjórnvalda hefur brugðist nánast fullkomlega fyrir utan uppgang á einstökum svæðum og kannski hefur fólksfjölgunin gengið best þar sem stjórnvöld hafa minnst skipt sér af. Því má spyrja stórra spurninga um gildi og inntak þeirrar byggðastefnu sem nú er framfylgt.

Hv. þingmaður sem mælti á undan mér kom að kjarna málsins. Hér glatast störf á landsbyggðinni, landsbyggðin er í nauðvörn og sérstaklega það svæði sem hér um ræðir, Vestfirðir. Til hvaða mótvægisaðgerða ætlar hæstv. ráðherra að grípa? Það er kjarni málsins.