133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[15:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að bíða með minn fögnuð þangað til við afgreiðum fjárlögin. Við höfum rætt þetta mál ár eftir ár en það reynir á hinar pólitísku yfirlýsingar þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga.

Ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að vekja máls á þessu brýna málefni sem ætti að vera á dagskrá Alþingis hvern einasta dag þar til viðunandi lausn hefur fundist. Við þurfum að ræða þetta mál í víðu samhengi. Bent hefur verið á að ef heimaþjónustan væri umfangsmeiri, ef dagdeildarþjónustan væri meiri, ef hvíldarinnlagnir væru auðveldari þyrfti færri stofnanaúrræði.

Það hefur líka verið bent á að víða úti á landsbyggðinni skortir sérhæfð úrræði fyrir heilabilaða. Það þýðir að fólk hafnar fyrr inni á stofnunum en ella mundi gerast. Síðan er á hitt að líta að þeir sem bíða lengi í löngum biðröðum eiga ekki kost á endurhæfingarúrræðum og hrakar einnig fyrr en ella og hafna inni á stofnunum.

Ég vil sérstaklega nota tækifærið til að vekja athygli á hlutskipti þeirra sem eru í yngri aldurshópunum, undir 67 ára aldri, og þurfa að ganga í gegnum alveg ótrúlegt skrifræði til þess að fá stofnanamat.

Að lokum þetta: Þjónusta við heilabilaða verður ekki slitin úr samhengi við aðbúnað og kjör starfsfólksins. Staðreyndin er sú að ef ekki verður gert stórátak á því sviði stefnir í stórslys.

Öll þessi orð eru góðra gjalda verð en við skulum dæma stjórnvöld af gjörðum þeirra þegar við afgreiðum fjárlögin frá okkur síðar í haust.