133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

hvalveiðar.

[10:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég er litlu nær eftir svör hæstv. sjávarútvegsráðherra. Rétt er að það komi fram að ég lét hæstv. umhverfisráðherra vita um leið og ég bað um þessa umræðu eða tilkynnti að ég hygðist fara hér upp. Þá aðvaraði ég hæstv. umhverfisráðherra jafnt og hæstv. sjávarútvegsráðherra með tölvubréfi seint í gær.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra orðar það svo að ríkisstjórnin standi að baki ákvörðun sinni um að hefja hvalveiðar. Hvað þýðir það? Hvað þýðir fyrirvari umhverfisráðherra nákvæmlega og kom sá fyrirvari fram í ríkisstjórn?

Frú forseti. Það er algjörlega nauðsynlegt að hæstv. sjávarútvegsráðherra svari því skýrt. Lá fyrirvari umhverfisráðherra fyrir þegar málið var tekið fyrir í ríkisstjórn eða er þetta einhver sérstakur fyrirvari sem hæstv. umhverfisráðherra kýs að hafa sér til friðþægingar úti í bæ? Eða lá það fyrir að einn að minnsta kosti og jafnvel fleiri af ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefðu fyrirvara gagnvart ákvörðun sjávarútvegsráðherra? Þá er málið ekki lagt rétt upp við Alþingi, að algjör samstaða ríki í ríkisstjórn um það.

Við verðum að fá þetta á hreint, ekki síst vegna þess að umhverfisráðherra er væntanlega sá af tveimur fagráðherrum í ríkisstjórn sem fær hvað mest að svara fyrir þetta mál. Hinn er reyndar ekki hæstv. sjávarútvegsráðherra, heldur utanríkisráðherra. Það eru nefnilega aðrir ráðherrar í ríkisstjórn sem væntanlega lenda mest í því að svara fyrir stöðu Íslands í málinu heldur en í raun hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Varðandi svo vinnsluleiðir aftur, þá er þetta auðvitað stórkostlegt umburðarlyndi hjá stjórnvöldum. Nú, þetta er bara eins og stundum gerist, segir hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það vantar eitthvað af leyfum og menn bara redda þeim. Þeir fengu ekki sömu miskunn í Búðardal. Ég endurtek það. Þetta er ný tegund umburðarlyndis í stjórnsýslunni, að menn megi bara bjarga sér einhvern veginn og einhvern veginn (Forseti hringir.) þó þeir hafi ekki tilskilin leyfi til að stunda þá starfsemi sem þeir eru að hefja.