133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni.

[12:01]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin sem og þeim hv. þingmönnum sem hér hafa lagt orð í belg. Það er fagnaðarefni að í þessu mikilvæga og stóra máli skuli ríkja þverpólitísk sátt enda málið grafalvarlegt. Hér er um dauðans alvöru að ræða í orðsins fyllstu merkingu.

Auðvitað tek ég undir það að vegabætur auka öryggi. En ég vek jafnframt athygli á því að flest þau slys og alvarlegustu slysin, þau sem við erum í rauninni að tala um, eiga rætur sínar að rekja til ofsaaksturs og það er ofsaakstur sem fyrst og fremst er meðal yngstu ökumanna og merkilegt nokk meðal ungra karlmanna, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir benti á. Með öðrum orðum, við verðum að ráðast á þessa ökumenn sem sýna þetta glæpsamlega athæfi í umferðinni. Það er ekki hægt að kalla þetta annað en glæpsamlegt athæfi því að það ógnar lífi og limum saklausra borgara. Það er einmitt það sem átak Umferðarstofu, Stopp átakið, gengur út á, þ.e. að taka höndum saman um að breyta þessari menningu.

Ég vil fagna því sem hæstv. ráðherra boðar hér. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það var mikið gæfuspor að fella öryggisþáttinn inn í samgönguáætlun og ég fagna sérstaklega þeim frumvörpum sem hæstv. ráðherra boðar og breytingum á reglugerð sem mun auka viðurlög. Þó ég sé ekki almennt refsiglaður maður frekar en aðrir sem hér hafa talað þá brýtur nauðsyn lög gagnvart þessum hópi. En það má líka grípa til annarra aðgerða. Bent hefur verið á ökurita sem gefur foreldrum kost á að fylgjast með akstursmáta barna sinna. Benda má á samning milli foreldra og barna, aksturssamning, sem hefur verið reyndur í nágrannalöndum okkar og það hefur verið bent á aukna virkni lögreglu með myndavélum.

Aðalatriðið er að það verða slys á þriggja tíma fresti og við verðum að grípa til aðgerða strax og ég tel að það sem hæstv. ráðherra sagði hér feli í sér (Forseti hringir.) skjótvirkar aðgerðir.