133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[13:56]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umfjöllunar er í sjálfu sér allrar athygli verð og ekki nema sjálfsagt mál að taka saman og gera úttekt á breytingum á raforkuverði sem hafa orðið í kjölfar þeirrar kerfisbreytingar sem samþykkt var hér fyrir líklega þremur árum eða svo. Ég held að menn þurfi að skoða reynsluna af þessari kerfisbreytingu, ég er ekki viss um að nægilega langur tími sé liðinn til að unnt sé að meta breytingarnar af fullri sanngirni en ég rifja upp að þegar þessar breytingar voru gerðar hér á meðan ég var formaður iðnaðarnefndar þá lét ég koma fram að ég hefði vissar efasemdir um markaðsvæðingu í þessum geira vegna þess að markaðsvæðing byggir á því, ef hún á að vera til gagns fyrir almenning, að samkeppni sé fyrir hendi, og nægilega mikil samkeppni til þess að verðið hækki ekki heldur lækki frekar en hitt, og fyrirtækin veiti góða þjónustu.

Við höfðum byggt upp, að vísu undir opinberri forsjá, raforkukerfi sem reyndist okkur vel og verðþróun í því var með þeim hætti á undaförnum áratugum að almenningur hér á landi gat í sjálfu sér vel við unað. Það er því alltaf umhugsunarefni hvort skipta eigi um kerfi sem hefur reynst vel og taka upp annað sem auðvitað er einhver óvissa fólgin í hvort reynist jafn vel og það sem fyrir var.

Hinu er ekki að neita að almennt hefur það orðið ofan á í stjórnmálunum og víðar að menn líta svo á að markaðsþjóðfélag sé betra en opinber áætlunarbúskapur og þó að finna megi dæmi um að hið síðarnefnda hafi reynst vel eins og auðvitað má segja um gamla raforkukerfið — það var auðvitað opinbert kerfi sem var algjörlega stýrt af pólitískum aðilum, framleiðsla, ráðstöfun, verðlagning og annað — þá hefur það almennt orðið ofan á að menn eigi að stefna í markaðsvæðingu og treysta á samkeppni til að skila þeim árangri sem sóst er eftir, hagstæðu verði og góðri þjónustu. Þetta hefur verið skrefið sem menn hafa stigið á síðasta áratug, ekki aðeins í raforkukerfinu heldur líka á fjármálamarkaðnum, lyfjamarkaðnum og fleira má nefna.

Það er út af fyrir sig ástæða til að skoða hvort hið smáa hagkerfi hér á landi hefur forsendur til að vera markaðshagkerfi bara vegna smæðar og fámennis og hvort aðstæður fyrir markaðshagkerfi með samkeppni að leiðarljósi séu fyrir hendi í öllum helstu atvinnuvegum okkar. Ég ætla ekki að halda því fram að fyrir liggi með óyggjandi hætti að samkeppnis- og markaðsvæðingin sé betri eða a.m.k. skili því sem ætlast er til. Þegar meta á allt þetta þurfa menn lengri tíma, því að þetta gerðist fyrir ekki löngu síðan og það þarf kannski að skoða hlutina í lengra ljósi áður en menn fella endanlegan dóm yfir kerfisbreytingunni, ekki bara á raforkusviðinu heldur öðrum sviðum líka. Ég held að menn þurfi líka að hafa farið í gegnum löggjöfina og styrkt hana til að koma á samkeppninni. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að snúa af þessari braut í skyndingu, það er ekki liðinn nægilega langur tími, heldur eigi menn að reyna til þrautar að koma því á sem ætlað er. Ég viðurkenni að á mörgum sviðum viðskiptanna virka markaðslögmálin ekki með þeim hætti sem við ætlumst til. Viðskiptabankarnir veita ekki neytendum nægilega góða þjónustu á því verði sem þeir og keppinautar þeirra erlendis veita sínum viðskiptavinum. Við sjáum svipaða stöðu í flutningum innan lands og milli landa og við sjáum í flugi að það skortir samkeppni í innanlandsflugi og víðar. Skortur á samkeppni er því alvarlegt vandamál í íslensku markaðshagkerfi.

Ég held að við því verði að bregðast með aðgerðum sem eru til þess fallnar að koma á samkeppni. Í fyrsta lagi að skoða það í fullri alvöru hvort ekki sé nauðsynlegt að brjóta upp fyrirtæki sem hafa stóra markaðshlutdeild og skipta þeim upp þannig að fleiri fyrirtæki keppi á hverjum markaði og að setja ríkari skorður við möguleikum þeirra á stækkun og ráðandi hlutdeild á markaði. Ég held að þetta þurfi menn að skoða af mikilli alvöru. Þetta getur auðvitað átt við um raforkumarkaðinn að vissu marki því að Landsvirkjun er náttúrlega yfirgnæfandi í framleiðslunni. Ég er ekki viss um að það sé endilega slæmt að opnað hafi verið fyrir það að fleiri gætu komið að framleiðslu rafmagns en Landsvirkjun ein og hún ráði í raun og veru öllu um það hvar rafmagn er framleitt, hvenær o.s.frv. Ég er ekki sannfærður um að það sé rétt að hafa alla þræði í þessu í höndum Landsvirkjunar, ég held að hitt sé til bóta að fleiri geti komið að framleiðslu rafmagns.

Verðlagning á rafmagni hefur hins vegar ekki verið eins og við væntum. Við gerðum ráð fyrir að breytingin leiddi ekki til hækkunar raforku. Það hefur því miður orðið, m.a. vegna breytinga á töxtum, og ég held að það sé slæmt. Það var ekki það sem við stefndum að og menn verða auðvitað að leggja sig fram um að verðlagning á raforku til einstaklinga og smærri fyrirtækja verði í takt við það sem fyrirheit voru gefin um á sínum tíma.

Virðulegi forseti. Ég vil almennt segja um þetta mál og markaðsvæðinguna að ég held að menn verði að grípa til aðgerða til að styrkja samkeppnina fremur en að fara til baka í opinbert kerfi. Ég spyr því flutningsmenn hvort þessi tillöguflutningur þeirra sé til marks um það að þeir hyggist snúa af braut markaðshagkerfisins og taka upp opinbera (Forseti hringir.) forsjá í fleiri atvinnugreinum eins og var hér áður fyrr.