133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

Ríkisútvarpið.

24. mál
[17:58]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. BSRB er ekkert hrætt við að taka afstöðu til þingmála, hvaða flokkur sem í hlut á. BSRB styður iðulega frumvörp sem koma frá ríkisstjórnarflokkunum. BSRB hefur iðulega stutt frumvörp sem koma frá Sjálfstæðisflokknum, frá Framsóknarflokknum, frá Samfylkingunni, frá VG eða Frjálslyndum. Menn eru ekkert að skoða hinn pólitíska lit á frumvarpinu út frá slíkum forsendum, heldur efnislega og út frá innihaldi. Ef fram kemur frumvarp sem svarar grundvallarhugmyndum innan samtakanna er það að sjálfsögðu stutt. Ég ítreka það að fólk úr öllum flokkum hefur komið að umræðu um þessi mál innan BSRB.

Innan BSRB hafa menn verið að ræða aðra tilburði sem nú eru uppi um einkavæðingu, t.d. á öryggisþjónustunni í Keflavík þar sem verkefni sem hafa verið hjá tollgæslunni og lögreglunni hafa verið markaðsvædd, sett í hendur einkafyrirtækja. Það er þverpólitískur stuðningur innan samtakanna við að mótmæla þessu. Sömuleiðis taka félagsmenn úr öllum stjórnmálaflokkum þátt í því að verja hagsmuni félaga sinna innan Ríkisútvarpsins, og sem þjóðfélagsþegnar vilja þeir að sjálfsögðu einnig hafa þessi mál í góðu lagi.

Varðandi stofngjaldið segir hér í 8. gr.:

„Öllu íbúðar- og atvinnuhúsnæði í landinu fylgir réttur til að nýta þjónustu Ríkisútvarpsins. Gjaldstofn afnotagjalds miðast við íbúðir og atvinnuhúsnæði eftir því sem við á.“

Þetta er síðan ekki búið að útfæra. Það er búið að setja fram þessa grundvallarhugsun en það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þar er ekki öllu svarað, heldur er grundvallarhugsunin sett fram og síðan væri verkefni að (Gripið fram í.) útfæra hana. (Forseti hringir.) Það má vel vera að hv. þingmaður vilji gera þetta að einhverju svona meiri háttar (Forseti hringir.) umræðuefni en þetta er náttúrlega ekki stóra (Forseti hringir.) málið. Þetta er grundvallarhugsunin sem hér hefur verið sett fram.