133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

starfsmannaleigur.

142. mál
[14:25]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og tek undir með hæstv. félagsmálaráðherra að þessi lög eru góð og voru auðvitað mikill áfangi. Við vitum það sem erum í félagsmálanefnd og kynntum okkur þessi mál í haust að það er alveg ljóst að það vantar fjármagn til Vinnumálastofnunar og ekki síst vegna þessara mála. En ég er þeirrar skoðunar að taka þurfi harðar á þeim leigum sem enn fara á skjön við þessa lagasetningu og ég fagna því þeim dómi sem nýlega féll í Héraðsdómi Austurlands. Ég tel að við verðum að taka hart á þeim sem ekki hafa tekið til hjá sér og það orðspor þarf að berast út að við líðum ekki slíka framkomu. Við eigum ekki að þurfa að horfa upp á ýmislegt sem hefur viðgengist hjá sumum starfsmannaleigum sem nýta sér neyð manna og að þeir skilja ekki tungumálið og þekkja ekki réttindi sín. Það er ljótur blettur á starfsemi starfsmannaleigna sem flestar starfa þó lögum samkvæmt.