133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vaxtarsamningar.

135. mál
[14:59]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrsta spurning hv. þm. Jóns Gunnarssonar er:

„Sér ráðherra eitthvað því til fyrirstöðu að gerður verði vaxtarsamningur við sveitarfélögin á Suðurnesjum, leiti þau eftir slíkum samningi?“

Það er rétt að hafa það í huga að vaxtarsamningar eru hluti af aðgerðum stjórnvalda til að jafna lífskjör í landinu innan þeirra svæða sem byggðaáætlun nær til og sem samþykkt hefur verið af eftirlitsstofnuninni ESA. Byggðakortið er í endurskoðun núna, sem á að ljúka árið 2008, ætla ég, og sveitarfélögin á Suðurnesjum eru ekki að öllu leyti í núgildandi byggðakorti.

Margt bendir til þess að sérstaklega beri að vara við þeirri þróun að vaxtarsamningar verði mjög margir og þá gerðir hver um sig við of lítið svæði að þá náist ekki þau sameflingaráhrif og samlegð sem að er stefnt með vaxtarsamningum yfirleitt. Ekki er talið ráðlegt að gera vaxtarsamninga við afmarkaðan hóp sveitarfélaga á tilteknu litlu svæði og taka þau út úr samhengi við stærra áhrifasvæði ef um það er að ræða. Þetta gildir almennt og þá einnig um hugsanlegan afmarkaðan fjölda sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem eru a.m.k. að einhverju leyti hluti af stærra atvinnusvæði höfuðborgarsvæðisins eða Suðvesturlands almennt.

Vaxtarsamningar byggjast á fyrirmynd frá t.d. OECD og reynslu margra landa og við höfum m.a. miðað þá við reynslu Finna. Vaxtarsamningar eru leið til að efla atvinnuþróun á tilteknum svæðum þar sem byggt er á sérkennum svæðanna og á möguleikum þeirra til nýsköpunar og almennrar eflingar atvinnulífi. Byggðir eru klasar fyrirtækja og stofnana á tilteknum kjarnasviðum. Í starfsemi innan einstakra klasa er m.a. lögð áhersla á að skapa aðstæður fyrir tækniþróun og nýsköpun, efla mannauð og styrkja starfsþjálfun og menntun, yfirfærslu og nýtingu nýjustu þekkingar á hverju sviði og auka samvinnu um markaðssetningu. Skilgreining á styrkleikum svæða og áherslum samningsins er á ábyrgð heimamanna hverju sinni. Ábyrgð á framkvæmd samningsins er einnig hjá heimamönnum.

Upphaflega stefndi ráðuneytið að því að gera einn vaxtarsamning og láta reyna á framkvæmd og gagnsemi hans. Það var vaxtarsamningur Eyjafjarðarsvæðisins sem undirritaður var í júní 2004. Eyjafjarðarsvæðið var talið hafa nægilegan styrk og umfang til þess að þetta form gæti gengið. Talið var ráðlegt að fá t.d. tveggja ára reynslu af þessu samstarfsformi áður en ákvörðun um fleiri slíka samninga yrði tekin. Vestfirðingar höfðu þá þegar unnið svokallaða byggðaáætlun fyrir Vestfirði og lögðu þunga áherslu á að fá vaxtarsamning fyrir Vestfirði. Ráðuneytið varð við þessu sem sjálfsagt er og var gengið frá þeim samningi í lok maí 2005. Þar með opnuðust færi fyrir önnur svæði til að sækjast eftir sambærilegum vaxtarsamningum.

Á þeim stutta tíma sem þessir tveir samningar hafa verið í gildi hafa komið fram áleitnar spurningar um vaxtarsamninga almennt. Veigamest þeirra lýtur að viðhorfi heimamanna til samningsins. Einkum varðar þetta þátttöku fyrirtækja sem almennt þyrfti að vera miklu meiri en orðið er enda verður ekki til neitt klasasamstarf án fyrirtækjanna. Þá hafa staðarmörk samninganna komið til umræðu, t.d. staðarmörk vaxtarsamnings Eyjafjarðar, þar sem ekki er tekið tillit til þess að atvinnusvæðið umhverfis Akureyri og um Norðurland og Norðausturland er mun stærra en afmörkun vaxtarsamningsins. Meðal annars hefur verið bent á að ferðaþjónustuklasi í Eyjafirði sé veigaminni án Hólaskóla í Skagafirði og að ferðaþjónusta í Skagafirði sé veigaminni án tengsla við Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur. Þá sé atvinnusvæði Eyjafjarðar og t.d. Húsavíkur að renna meira og meira saman eins og komi vel fram í mati á staðsetningu stóriðju við Húsavík.

Önnur spurning hv. fyrirspyrjanda er:

„Hvað má ætla að gerð slíks samnings taki langan tíma?“

Greiningarvinna og tillögugerð sem var undanfari vaxtarsamnings við Eyjafjarðarsvæðið tók um 15 mánuði og lauk með skýrslu í mars 2004. Samningurinn var síðan undirritaður í júlí sama ár þannig að undirbúningsvinnan tók rúmlega eitt og hálft ár. Svipaða sögu er að segja um aðra samninga.

Þriðja spurningin er:

„Hvar eru slíkir samningar í gildi nú og hver er áætlaður kostnaður ríkissjóðs við þá?“

Vaxtarsamningarnir sem gerðir hafa verið eru til fjögurra ára. Vaxtarsamningur Eyjafjarðarsvæðisins, þar er hlutur iðnaðarráðuneytis 90 milljónir, vaxtarsamningur Vestfjarða, þar er hlutur iðnaðarráðuneytis 75 milljónir, vaxtarsamningur Vesturlands, þar er hlutur iðnaðarráðuneytis 60 milljónir og vaxtarsamningur Suðurlands og Vestmannaeyja, sem nýlega var gerður, þar er hlutur iðnaðarráðuneytisins 75 milljónir.