133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vaxtarsamningar.

135. mál
[15:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er afar óánægður með svör hæstv. ráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að gera vaxtarsamning við sveitarfélögin á Suðurnesjum, leiti þau eftir slíkum samningi. Ég get helst skilið svörin þannig að það komi ekki til greina.

Í fyrsta lagi að vegna mistaka ráðuneytisins á sínum tíma þá eru Suðurnesin ekki á byggðakorti, þ.e. Grindavík er á byggðakorti en ekki önnur sveitarfélög á Suðurnesjum eins og Vogar, Garður eða Sandgerði. Fyrir þau mistök sem þar voru gerð notar hæstv. ráðherra byggðakortið til þess að segja að ekki megi gera vaxtarsamning við sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Í öðru lagi segir hæstv. ráðherra að vaxtarsamningar séu til að jafna lífskjör og það þurfi ekkert að jafna lífskjör á Suðurnesjum.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að við fáum svona svör frá hæstv. iðnaðarráðherra? Er ekkert lát á fjandskap iðnaðarráðherra hæstvirtra Framsóknarflokksins gegn Suðurnesjum? Við áttum við það að etja með fyrrum iðnaðarráðherra og nú virðist núverandi hæstv. iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins höggva nákvæmlega í sama knérunn.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum eru einhver afmarkaður hópur í hans huga. Hæstv. ráðherra er nýbúinn að skrifa undir vaxtarsamning við Suðurland, sem er í nágrenni við Reykjavík, en Suðurnesin geta ekki fengið vaxtarsamning, segir hæstv. ráðherra, af því að þau liggja svo nálægt Reykjavík. Þetta er ótrúlegur fjandskapur í garð Suðurnesja og ég verð að biðja hæstv. ráðherra að útskýra hvað hann á við.

Hæstv. ráðherra fór hér yfir kostnaðinn sem iðnaðarráðuneytið hefur af þessum samningum. Þetta er frá 60 milljónum upp í 90 milljónir eftir svæðum. Suðurnesin fá 12 milljónir til atvinnuþróunar og nýsköpunar frá ríkinu, frá Byggðastofnun og hér segir hæstv. ráðherra að ekki komi til greina að gera vaxtarsamning við Suðurnesin.