133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:32]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum öll sammála um að betur megi gera í þessu máli. En ég held líka að sú skoðun hafi verið almenn hér á Íslandi að besta úrlausnarefni varðandi aldraða sjúka væri að byggja hjúkrunarheimili.

Mér hefur fundist bera mikið á því að menn hafa ekki horft á nýjar leiðir eða hvernig mætti betur gera. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem það hefur komið upp.

Aðeins varðandi Sóltún og Hrafnistu, við erum með nýja 60 rýma hjúkrunarálmu við Hrafnistu í Reykjavík sem er ekkert síðri en Sóltún. Það er dálítið merkilegt hvað Sóltún er mikið hér í umræðunni eins og það sé hið eina sem hafi gerst í málefnum aldraðra á undanförnum árum. Það er bara rangt.

Varðandi svo aftur þá öldruðu, hvað menn ætla að gera og að ekkert hafi gerst hjá þessari ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er rangt. Ég var einmitt að vitna til hæstv. heilbrigðisráðherra sem hefur boðað nýja stefnu. Það gerist kannski ekki alveg á einni nóttu. (Gripið fram í.) En vonandi er það að koma. Það er í þá veru, eins og ég sagði áðan, DAS er með bæjarfélaginu í Kópavogi að fara aðrar leiðir. Það er ekki langt síðan að Hrafnista skrifaði undir viljayfirlýsingu við borgaryfirvöld um að byggja 100 þjónustuíbúðir ásamt þjónustukjarna sem á að þjóna þeim öldruðu sem eiga búsetu í næsta nágrenni. Þetta er allt á fleygiferð sem betur fer. Það þarf bara að gefa þessu aðeins tíma en þetta munu menn sjá mjög fljótlega.