133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[16:07]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Kristjáni Möller að unnin voru drög að reglugerð sem sýndu stór heilbrigðisþjónustusvæði. Þau eru stór núna, það er eitt stórt á Suðurlandi og eitt stórt á Austurlandi og búið að sameina þar stofnanir í eina heilbrigðisstofnun. Þetta var hugsað þannig í upphafi, hluti af þessu frumvarpi.

Ég gerði mér strax grein fyrir að það var mikil andstaða við þetta, sérstaklega á Norðausturlandi, á Vestfjörðum og að hluta til á Vesturlandi. Menn voru hræddir við þessar breytingar og töldu að þetta væru of miklar sameiningar og svæðin yrðu of stór. Ég býst líka við að menn séu mannlegir og séu eins og gengur og gerist viðkvæmir fyrir breytingum.

Ég gerði mér grein fyrir þessu og ákvað þess vegna að að koma ekki með þessa reglugerð inn í þingið þar sem ég taldi að hún yrði ekki að veruleika. Hún mundi bara æsa upp málið og yrði ekki til góðs. Ég sá því enga ástæðu til að flagga þessari reglugerð og mun ekki gera það. Fyrir utan það var frumvarpinu breytt þannig að gerðar voru enn þá meiri breytingar til að koma til móts við þann titring sem maður varð var við. Það endurspeglast í 5. og 6. gr. frumvarpsins. Þar er búið að setja inn núna heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir í stað þess að í hverju umdæmi, heilbrigðisumdæmi, skuli vera ein heilbrigðisstofnun. Þannig að þær geta verið fleiri eins og frumvarpið er í dag. Þær eru fleiri í dag.

Það er búið að breyta frumvarpinu til að koma til móts við þá andstöðu sem maður fann við sameiningar. Það er líka búið að setja inn að það á að hafa samráð við sveitarfélögin og Samband íslenskra sveitarfélaga. Það var tekið út úr gildandi lögum á sínum tíma og er ekki í gildandi lögum í dag. Það eru meiri girðingar í frumvarpinu núna, verði það að lögum, en gilda í dag gagnvart sameiningu. Ég tel því að búið sé að koma algjörlega til móts við þessar áhyggjur.