133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

lækkun virðisaukaskatts á geisladiskum.

[15:35]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að kalla rök mín skynsamleg. Hæstv. ráðherra sagði jafnframt að málið væri í skoðun og að ekki væri enn búið að komast að niðurstöðu. Má ég þá ekki, frú forseti, bjóða hæstv. fjármálaráðherra aðstoð mína í þessu máli? Hæstv. ráðherra hefur sagt að rök mín um að verið sé að brjóta jafnræðisreglu gagnvart íslenskri tónlist séu rétt. Hæstv. ráðherra hefur sömuleiðis tekið undir með mér um að þarna sé verið að skekkja samkeppnisstöðuna. Ég hef lagt hérna fyrir ákveðin rök, ég hef skoðað þetta mál og ef hæstv. véfrétt í Delfí í fjármálaráðuneytinu á erfitt með að komast að niðurstöðu er ég í þessu máli, eins og flestum öðrum, reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum til þess að leiða þessa ríkisstjórn af villu síns vegar. Ég tel að hér sé verið að brjóta jafnræðisregluna gagnvart íslenskri tónlist vegna þess að það er verið að skekkja samkeppnisstöðuna.

Frú forseti. Ég er til þjónustu reiðubúinn fyrir ríkisstjórnina í þessu máli.