133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[15:41]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, vegna hækkunar á lágmarki eignaviðmiðunar að frádregnum skuldum til skerðingar á vaxtabótum.

Frumvarp þetta er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júní á þessu ári til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga. Í yfirlýsingunni segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kemur við niðurstöðu álagningar í ágúst nk. að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hefur leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum.“

Þegar ákvörðun vaxtabóta vegna vaxtagjalda, sem greidd voru á síðasta ári, lá fyrir í ágúst sl. kom í ljós talsverð skerðing á heildarfjárhæð vaxtabóta frá því sem reiknað hafði verið með samkvæmt forsendum fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Jafnframt var um umtalsverða fækkun vaxtabótaþega að ræða. Hafa ber í huga að vaxtabótakerfið er grundvallað á mörgum ólíkum þáttum sem saman mynda grunn að rétti einstaklinga til vaxtabóta. Þeir þættir sem hafa haft hvað mest áhrif á vaxtabætur undanfarin ár og almennt leitt til skerðingar vaxtabóta eru annars vegar tekjuaukning og hins vegar hækkun á fasteignamati á milli ára. Hækkun á fasteignamati hefur áhrif á eignaviðmið vaxtabóta en athuga ber að inni í eignaviðmið vaxtabóta komi ekki bara fasteignir heldur jafnframt aðrar eignir eins og t.d. hlutabréf á nafnvirði, önnur verðbréf, bankainnstæður og ökutæki. Aukning í öðrum eignum en fasteignum hefur því áhrif á eignaviðmið og leiðir til skerðinga á vaxtabótum.

Mikilvægt er því að gæta þess að með frumvarpi því sem hér er lagt fram er í samræmi við áðurnefnda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar einvörðungu verið að bregðast við þeim þætti útreikninga vaxtabóta sem snýr að hækkun á fasteignamati. Ekki er með frumvarpinu verið að bregðast við þróun annarra þátta sem áhrif hafa á útreikninga vaxtabóta, svo sem mikla tekjuaukningu.

Í fjárlögum þessa árs var reiknað með að útgjöld ríkissjóðs vegna vaxtabóta yrðu 5,1 milljarður króna að teknu tilliti til þeirra vaxtabóta sem alla jafna bætast við frumálagningu skattstjóra við kærur og endurúrskurði. Sú viðbótarfjárhæð var áætluð 300–400 millj. kr. Það þýðir að í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir að frumálagning skattstjóra gæti orðið nálægt 4,8 milljörðum króna. Niðurstaða hennar varð hins vegar sú, samkvæmt álagningartölum sem birtust í ágúst sl., að ákvarðaðar vaxtabætur voru tæpir 4,5 milljarðar króna, þ.e. um 300 millj. kr. lægri upphæð en reiknað hafði verið með í fjárlögum.

Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins hækkaði fasteignamat á íbúðarhúsnæði á landinu öllu um nálægt 30% að meðtalinni magnaukningu. Breytingin er hins vegar mjög mismikil milli landshluta, allt frá því að vera 35% á sérbýli á Stór-Reykjavíkursvæðinu niður í 5% á smærri stöðum úti á landi. Sem dæmi hækkaði matsverð fjölbýlishúsa í Reykjavík um 30%, íbúðarhúsnæðis á Akureyri um 20% og um 15% í Stykkishólmi. Þá sýna heildartölur úr skattframtölum að framtalin nettóeign allra framteljenda hækkaði um tæp 25% milli áranna 2004 og 2005 og um rúmlega 20% að frátalinni fjölgun framteljenda.

Það er ekki nýtt fyrirbæri að fasteignamat hækki mismikið á mismunandi stöðum á landinu, jafnvel innan sama svæðis. Eins og vaxtabótakerfið er byggt upp er hins vegar óhjákvæmilegt að öll viðmið þess séu sett fram á einum grunni fyrir alla og á það því við um eignaviðmiðið sem eins og áður hefur verið rakið tekur til fleiri þátta en fasteigna.

Þar sem hækkun fasteignamats var mismikil bæði milli landshluta og einstakra sveitarfélaga er í frumvarpi þessu valin sú leið að leggja til hækkun eignaviðmiða á grundvelli meðaltalshækkana. Er ekki annað talið framkvæmanlegt en að notast við meðalviðmiðun fyrir landið allt þegar kemur að útfærslu á ofangreindri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, enda byggja bæði eignaviðmið og önnur viðmið vaxtabótakerfisins á almennum mælikvörðum. Verður og að hafa í huga í því sambandi að við útreikning vaxtabóta er ekki aðeins horft til fasteigna heldur og til annarra eigna.

Á grundvelli framangreindra forsendna er því í frumvarpi þessu lagt til að lágmark eignaviðmiðunar að frádregnum skuldum til skerðingar á vaxtabótum verði hækkað afturvirkt um 25%. Sú breyting er talin kosta ríkissjóð um 500 millj. kr. en það þýðir að ætla má að vaxtabætur í ár muni nema 200 millj. kr. umfram það sem reiknað var með í fjárlögum þessa árs, þ.e. 5,3 milljörðum króna í stað 5,1 milljarðs króna í fjárlögum þegar endanlegar tölur liggja fyrir.

Verði frumvarpið að lögum er talið að vaxtabótaþegum muni fjölga um u.þ.b. fimm þúsund við þessa breytingu. Sem dæmi um áhrif hækkunar skerðingarmarka eigna við útreikning á vaxtabótum má taka tvö einföld dæmi um hjón, einstætt foreldri og einstakling. Í fyrra dæminu er tekjustofn einstæðs foreldris og einhleypings 4 millj., eignastofn 6 millj., skuldir vegna íbúðarkaupa 10 millj. og vextir 520 þús. kr. Fyrir hjón eru þessar fjárhæðir tvöfalt hærri. Tekjustofn er 8 millj., eignastofn 11 millj., skuldir vegna íbúðarkaupa 20 millj. og vextir 1.040 þús. kr.

Við ákvörðun vaxtabóta í ágúst sl. fengu þessir aðilar engar vaxtabætur. Við endurákvörðun vaxtabóta, verði frumvarp þetta að lögum, mundu hjónin fá 94 þús. kr. í vaxtabætur, einstætt foreldri 134 þús. kr. og einhleypingur 132 þús. kr. Í síðara dæminu er um tekju- og eignaminni aðila að ræða sem fengu vaxtabætur í ágúst sl. Í dæminu er tekjustofn einstæðs foreldris og einhleypings 3 millj., eignastofn 5 millj., skuldir vegna íbúðarkaupa 8 millj. og vextir 416 þús. kr. Fyrir hjón eru þessar fjárhæðir tvöfalt hærri, þ.e. tekjustofn er 6 millj., eignastofn 8 millj., skuldir vegna íbúðarkaupa 16 millj. og vextir 832 þús. kr. Í ágúst sl. fengu hjónin 222 þús. kr. í vaxtabætur en fá við endurákvörðun 280 þús. kr. Einstætt foreldri fengi 94 þús. en við endurákvörðun fær það 193 þús. kr. Einhleypingur fékk 94 þús. kr. í vaxtabætur en við endurákvörðun 170 þús. kr.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.