133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:00]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð ekki vör við að hv. þingmaður væri að beina einhverri fyrirspurn sérstaklega til mín varðandi þetta mál. Hann var bara að lýsa því yfir að laun hefðu hækkað meira en neysluvísitala á ákveðnum tíma. Það er náttúrlega misjafnt hvað kaupmáttur hefur vaxið í landinu. Við vitum að t.d. lífeyrisþegar, öryrkjar hafa fengið helmingi minni kaupmátt en aðrir á umliðnum árum og þetta eru hópar sem eru líka með vaxtabætur. Þegar verið er að meta greiðslugetu fólks og lánamöguleika til að standa undir því þá eru vaxtabæturnar líka lagðar til grundvallar, þ.e. hvað viðkomandi getur búist við að fá í vaxtabætur og endurgreiðslu á vöxtum, þannig að vaxtabæturnar eru auðvitað mikilvægur þáttur í greiðslumati hjá fólki. Eins og ég nefndi hafa þær sífellt verið skertar á umliðnum árum, bara frá 2003 um 1,4–1,5 millj. kr., og þegar fólk getur aldrei treyst hve mikið það fær í vaxtabætur þá hefur það áhrif á greiðsluáætlanir þess. Það væri fróðlegt að heyra hvort hv. þingmaður telur að þetta eignaviðmið sem byggt er á fasteignamati sé eðlilegt viðmið og hvort hann telji ekki að það eigi að breyta því til frambúðar að vera ekki að miða útreikninga á vaxtabótum við þessi eignamörk eða eignaviðmið sem eru jafnsveiflukennd og við höfum séð á umliðnum missirum.