133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:51]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör. Ég heyri ekki annað á máli ráðherrans, og miðað við þá ályktun sem ég hef hér verið að lesa, en að það sé bullandi ágreiningur milli fjármálaráðherra og ASÍ um þessa endurútreikninga á vaxtabótum. Þetta verðum við auðvitað að fara nákvæmlega yfir í efnahags- og viðskiptanefnd vegna þess að ályktun ASÍ er mjög skýr. Hún krefst þess að ríkisstjórnin standi við gefin loforð og það er greinilegt að ASÍ telur að ríkisstjórnin standi ekki við gefin loforð. Þetta var gert í tengslum við kjarasamningana þannig að það er auðvitað mikilvægt að sú leiðrétting sem hér fer fram gagnvart þeim sem fengu skertar vaxtabætur í ágúst sé gerð í góðu samráði við ASÍ sem náði þessu fram í viðræðum við ríkisvaldið í tengslum við kjarasamninga. Þetta er nokkuð sem við þurfum að fara mjög vel yfir í efnahags- og viðskiptanefnd.

Varðandi það hvort fólkið sem fær þarna leiðréttingu á sínum málum fái greiðsluna til baka með dráttarvöxtum eða ekki voru nokkuð óljós svör frá ráðherra. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hann teldi það ekki rétt og eðlilegt að að lágmarki fengi þetta fólk leiðréttinguna til baka með sambærilegum vöxtum eins og fjármálaráðherra tekur af fólki sem skuldar skattkerfinu.

Ég er ekki alveg klár á því hvernig þær reglur eru. Ég heyri að hæstv. ráðherra er það ekki heldur. Ég veit þó að fólk sem skuldar ríkinu þarf að greiða dráttarvexti. Ef það er með einhverja skuld sem fellur í gjalddaga og fjórir mánuðir líða þar til fólkið greiðir skuldina þarf það væntanlega að greiða dráttarvexti.

Ég spyr hæstv. ráðherra aftur hvort hann telji það ekki sanngjarnt, og eðlilegt þá, að fólkið fái þetta til baka með dráttarvöxtum ef þetta er staðreyndin. Það er þá bara sanngjarnt miðað við skuldir einstaklinganna við ríkið að það sé greitt með dráttarvöxtum.