133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:54]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli þessum síðustu orðum hv. þingmanns um að ég hafi einhvern sérstakan áhuga á því að fólk á Íslandi hafi lágar tekjur og eigi ekki að geta haft góðar tekjur. Það á ekkert skylt við þá umræðu sem hér er, að bera þetta á borð með þessum hætti.

Ég hef hins vegar ævinlega talið, hæstv. forseti, og hef sagt það áður í þessum ræðustól og á ýmsum opinberum fundum sem ég hef mætt á, að þeir sem hafa hæstu tekjurnar og besta afkomu í þjóðfélaginu þurfi ekki að kvarta undan því þó að þeir leggi þjóðfélaginu meira til en hinir sem hafa lakasta afkomuna og eru að sinna þeim störfum sem vissulega þarf að vinna í þjóðfélagi okkar þó að það séu ekki hálaunastörf. Þar erum við m.a. að tala um ýmis þjónustustörf o.s.frv. sem eru ekki hálaunuð og verið er að inna af hendi og nauðsynlegt að sinna samt í þjóðfélagi okkar. Það er auðvitað ekki þannig að það séu bara útlendingar í þeim störfum þó að það hafi farið vaxandi á undanförnum árum. En það eru líka oft útlendingar sem vinna mikið, vinna langan vinnudag.

Það er algjörlega rétt, hæstv. forseti, að hér hafa komið til fjármagnstekjur til að standa undir þeim verkum sem við viljum standa að í þjóðfélaginu og ber að fagna því að það skuli gerast að hér hafi ýmsir efni á að borga fjármagnstekjuskatt, og ég hef ekki mikið við það að athuga í sjálfu sér, hæstv. forseti, þó að þjóðfélagið breytist með þeim hætti. Það sem ég hef einfaldlega sagt er að ég tel að skattkerfið eigi að vera til tekjujöfnunar og að hófleg skattheimta, þó að hún sé þannig útfærð að hún sé til tekjujöfnunar og þeir beri meira úr býtum og haldi meiru eftir hlutfallslega af launum sínum sem eru með lægstu tekjurnar, þá þýðir það ekki að menn vilji ekki vinna í íslensku þjóðfélagi.