133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

lækkun virðisaukaskatts á geisladiskum.

[13:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það hefur margsinnis komið fram í þessum sölum að það er mikill vilji hjá þingmönnum til að jafna þá samkeppnisstöðu sem hefur um árabil verið nokkuð skökk milli bókarinnar og tónlistarinnar að þessu leyti. Ég fagna því að hæstv. ríkisstjórn ætlar að lækka neðra þrepið í virðisaukaskattinum. Það vill hins vegar svo til að íslensk tónlist, geisladiskar, eru í efra þrepinu og verða áfram í 24,5% flokknum. Það þýðir með lækkun neðra þrepsins að samkeppnisstaða þessara tveggja vara skekkist allverulega við þetta. Það er auðvitað ekki í anda þess jafnræðis sem við höfum verið að tala um.

Mér er kunnugt um að forsvarsmenn íslensks tónlistariðnaðar hafa gengið á fund ríkisstjórnarinnar til að reyna að ná fram réttlæti í þessu máli og mér er það ekki nóg þegar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að málið sé í athugun og skoðun.

Ég hjó þó eftir einu sem mér þótti mikilvægt hjá hæstv. ráðherra. Hann sagði að enn væri ekki búið að tímasetja þetta og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það sem ekki er búið að tímasetja? Er hann að segja að það sé í reynd búið að ákveða að fara þessa leið og lækka virðisaukaskatt á tónlistinni? Ef svo væri er það mikið fagnaðarefni en ég vil biðja hæstv. ráðherra í fullri vinsemd að skýra hvað hann átti við.