133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[13:40]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að flestum Íslendingum sé ljós sú þróun sem verið hefur hér á undanförnum missirum. Við sjáum að fólki af erlendu bergi brotnu hefur fjölgað mjög hratt á Íslandi og það er þess vegna sem ég kem upp í dag, virðulegi forseti, með utandagskrárumræðu þar sem ég vil fá að setja í gang umræðu um fjölgun útlendinga á Íslandi.

Það var þannig, virðulegi forseti, að fram til 1. maí sl. var sæmilega góð stjórn á þessu öllu saman. Þótt við upplifðum þenslutíma, uppbyggingartíma, höfðum við Íslendingar þokkalega góða stjórn á þessu vil ég meina, þ.e. stjórnvöld gáfu út atvinnuleyfi og dvalarleyfi til útlendinga sem hingað vildu koma í vinnuleit og það var ekki gert nema sýnt og sannað þótti að Íslendingar fengjust ekki í störfin. En á lokadögum apríl síðastliðins kom allt í einu frumvarp inn í þingið frá hæstv. félagsmálaráðherra, þ.e. forvera þess sem nú er, og það var mælst til þess að tekið yrði upp frjálst flæði vinnuafls frá löndum sem gengu inn í Evrópusambandið árið 2004, Austur-Evrópuríkjum, mjög fjölmennum, þar sem víða er mikið atvinnuleysi og fátækt. Þessi lönd höfðu gengið í Evrópusambandið og samkvæmt skilmálum evrópska efnahagssamningsins bar okkur að taka upp frjálst flæði vinnuafls frá þessum löndum.

Hins vegar, og gleymum því alls ekki, gátum við fengið frest til aðlögunar til 2009, jafnvel alla leið til 2011. Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum völdu ríkisstjórnarflokkarnir ekki að fara þá leið, þrátt fyrir að allir sem skoðuðu málin af raunsæi og yfirvegun sæju að við værum ekki reiðubúin til að taka á móti þeim fjölda sem hingað mundi eflaust streyma. Stjórnsýslan, skólakerfið, heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið, og eftirlitsstofnanir voru ekki í stakk búin til þess.

Við höfðum líka séð ljót dæmi um að brotið hafði verið á erlendu vinnuafli sem hafði komið hingað af sumum atvinnurekendum. Verkalýðsfélögin höfðu sýnt okkur mörg dæmi um þetta og sum þeirra voru ansi ljót. En þetta varð hins vegar að veruleika. Frumvarpið var keyrt í gegnum þingið á einni viku, hneykslanlegar aðferðir og þinginu til skammar, verð ég að segja, að það skuli hafa verið gert með þessum hætti. Okkur þingmönnum var stillt upp við vegg og við fengum val um að samþykkja þetta ellegar mundum við lenda í vandræðum, sem var auðvitað tóm blekking. Við hefðum getað farið fram á þessa fresti en það var ekki gert.

1. maí árið 2006 var svartur dagur í sögu þjóðarinnar og það voru sendar sennilega köldustu kveðjur sem verkalýðshreyfingin og launþegar í landinu höfðu nokkru sinni fengið því það sem gerst hefur eftir þetta er að erlent vinnuafl hefur flætt inn í landið sem aldrei fyrr. Sennilega eru komin hingað í kringum 10 þúsund manns frá áramótum. Við vitum ekki nákvæma tölu. Það eru vísbendingar um að fjölmargir séu hér jafnvel án þess að vera með kennitölur. Svart vinnuafl sem í raun og veru er hvergi til.

Nýjustu tölur sem við höfum séð eru frá því í júní. Hvað gerðist í júlí, ágúst og september eða október vitum við lítið um. Þetta er stjórnlaust ástand og þetta er mjög alvarlegt ástand. Það hefur sýnt sig að stjórnvöld hafa ekki staðið við fyrirheit sem þau gáfu til að mynda í vor um að fara í vinnu við að marka stefnumótun fyrir innflytjendur hér á landi. Enn bíður félagsmálanefnd eftir því að fá kynnta þessi stefnumótun sem henni var lofað að yrði kynnt fyrir 1. október. Það bólar hvergi á henni. Frá starfshópi sem átti að fjalla um þessi mál og skila af sér niðurstöðum 1. nóvember hefur ekkert heyrst heldur. Hins vegar sjáum við ótal vandamál úti í þjóðfélaginu. Við sjáum jafnvel merki um að Íslendingar eru farnir að missa vinnuna núna vegna þess að þeir eru ekki samkeppnisfærir við erlent vinnuafl sem er reiðubúið til að vinna hér á lágmarkstöxtum og jafnvel undir lágmarkstöxtum. Stjórnvöld virðast ekkert ráða við ástandið. Við hljótum öll að sjá, ef við skoðum málið bara kalt og raunsætt og víkjum til hliðar pólitískum rétttrúnaði, að hér stefnir í óefni. Það sjá allir skynsamir menn að hér stefnir í óefni. Því hvað gerum við síðan þegar hægist á, þegar fer að kólna í hagkerfinu? Hvað gerum við þá? Þá verður Íslendingum sennilega boðin vinna á mörgum stöðum á strípuðum lágmarkstöxtum og vilji þeir ekki þiggja vinnuna er þeim einfaldlega sagt að hypja sig vegna þess (Forseti hringir.) að það er svo auðvelt að fá erlent vinnuafl.