133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

fjölgun útlendinga á Íslandi.

[13:46]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að hvetja til þess að gætt sé fyllstu virðingar í umræðum um þessi mál. Ég vil hvetja hv. þingmenn sérstaklega til að vera öðrum góð fyrirmynd í umræðum um þau mál sem við ræðum hér í dag. Okkar ábyrgð er mikil. Það er öllum ljóst.

Ég hef gert mér grein fyrir því og vil undirstrika í upphafi að geysilega mikil vinna hefur verið lögð í mál sem varða erlent vinnuafl og innflytjendamál undanfarin missiri. Að þeirri vinnu hafa margir komið, enda er það grundvallaratriði þegar unnið er að málum eins og þessum, málum sem varða allt samfélagið. Málum sem varða okkur öll, fólk um allt land. Ég geri mér mjög vel grein fyrir þessu og get fullvissað þingheim um að vel er fylgst með framvindu mála.

Þær upplýsingar sem ég hef að byggja á sem félagsmálaráðherra í dag eru fengnar frá ýmsum aðilum, þar á meðal frá fulltrúum Alþýðusambands Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Ég átti í gær fund með Alþýðusambandi Íslands og í morgun með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins. Þar lýstu þeir áhyggjum af þeim farvegi sem umræðan hefur verið í undanfarna daga. Þessir sömu aðilar tóku þátt í að semja frumvarp til laga um starfsmannaleigur. Þeir komu með okkur að undirbúningi fyrir 1. maí síðastliðinn og koma nú með okkur að gerð frumvarpa sem eiga enn frekar að styrkja innviði vinnumarkaðarins.

Ég segi það hér og hef alltaf sagt að við verðum að vera vel vakandi og gera okkur grein fyrir því að hér bera allir ábyrgð, stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og samfélagið í heild.

Hv. þingmaður talar eins og hér hafi skollið á flóðbylgja útlendinga eftir 1. maí síðastliðinn vegna tilkomu frjálsrar farar launafólks frá nýjum aðildarríkjum að samningnum við Evrópska efnahagssvæðið og kerfið hafi ekki verið viðbúið þeim fjölda. Líkt og hér hafi ekki áður starfað útlendingar á íslenskum vinnumarkaði. Það er mál manna sem fylgjast best með að ráðningar erlends vinnuafls hafi færst til betra horfs, ég undirstrika, til betra horfs en var fyrir 1. maí síðastliðinn. Þá var starfsmannaleiguformið allsráðandi en eftir 1. maí hefur orðið breyting á.

Nú eru erlendir starfsmenn fyrst og fremst ráðnir með beinum hætti með ráðningarsamningum sem byggjast á íslenskum kjarasamningum. Þannig viljum við hafa það og það var meginástæða þess að Alþýðusamband Íslands, eins og Samtök atvinnulífsins studdu opnunina 1. maí síðastliðinn. Þeir vildu ekki sjá hér erlenda starfsmenn fyrst og fremst starfandi á vegum starfsmannaleigna eða sem þjónustuveitendur án tengsla við íslenska kjarasamninga. Þetta var afstaða þeirra sem gerst þekkja til á vinnumarkaði og á henni byggðu stjórnvöld sína ákvörðun.

Það er ekki svo að ríkisborgarar nýju aðildarríkjanna geti komið hingað í tugatali og valsað hér um eins og hv. þingmaður hefur lagt að í máli sínu á opinberum vettvangi um þessi mál. Ég tel að hv. þingmaður ætti að vita betur. Ríkisborgarar innan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins þurfa að sjálfsögðu að hlíta ákveðnum leikreglum.

Það er sérstaða þeirra erlendu ríkisborgara sem til Íslands koma að þeir koma hingað til að vinna. Þeir eru mikilvægt framlag á vinnumarkaði þegar atvinnuleysið mælist jafnvel undir 1% í vissum landshlutum.

Vinnumarkaður okkar Íslendinga hefur afar marga kosti og það vil ég undirstrika. Óvenjuhátt hlutfall beggja kynja er virkt á vinnumarkaði og við Íslendingar vinnum lengur fram eftir aldri en flestar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Við höfum þörf fyrir þetta vinnuafl. Við erum aðilar að EES-samningnum og höfum notið kosta hans í svo ótalmörgu tilliti.

Hæstv. forseti. Ég vil undirstrika það, að sú umræða sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur haft uppi undanfarna daga endurspeglar alls ekki hlutverk erlends vinnuafls hér á landi í dag og framlag þess til uppbyggingar í samfélagi okkar og efnahagslífsins í heild. Viljum við frekar að íslensk fyrirtæki flytji starfsemi sína til annarra landa? Ég segi nei. Höldum mikilli uppbyggingu á atvinnustarfsemi áfram hér á landi.

Við hv. þingmann vil ég segja þetta og tala skýrt: Ég vil í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins auka sýnilegt eftirlit með kjörum og aðbúnaði erlends vinnuafls og að því vinn ég. Ég vil í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins sjá til þess að lögin okkar varðveiti íslenskan vinnumarkað og að því vinn ég. Ég vil að þeim sem hingað koma bjóðist vandaðar upplýsingar um okkar samfélag og íslenskukennsla. Að því er unnið. Ég vil að þessu fólki sé sýnd virðing og það verður að tryggja með margvíslegum hætti. Það get ég fullyrt. Að því koma fjölmargir sem hafa langa og góða reynslu af fólki sem er af erlendu bergi brotið, svo sem Fjölmenningarsetrið á Ísafirði sem þjónar öllu samfélaginu. Hið sama gerir Alþjóðahús sem ég hef nýlega gert samning við um tiltekið verkefni og mun eiga frekara samstarf við á næstunni.

Ég vil ekki nota þennan stutta tíma sem ég hef hér til að telja upp allt sem hefur verið gert. Nei. Ég vil segja frá því sem við ætlum okkur að gera. Ég hef nú í haust átt samráð við aðila vinnumarkaðarins og rætt við ýmsa og undirbúið afstöðu Íslands til þess hvort íslenskur vinnumarkaður verði opnaður þann 1. janúar fyrir vinnuafli frá Búlgaríu og Rúmeníu. Ég tók málið upp í ríkisstjórn í morgun og að höfðu samráði við forsætisráðherra lýsi ég því hér með yfir að íslensk stjórnvöld munu gera hið sama gagnvart Búlgaríu og Rúmeníu og gert var vorið 2004 gagnvart þeim ríkjum sem þá gerðust aðilar að EES-samningnum.

Við höfum þannig ákveðið að nýta okkur fyrstu tvö árin til að sjá hver þörf verður fyrir vinnuafl hér á landi og hver ásóknin verður og (Forseti hringir.) taka yfirvegaða ákvörðun í framhaldi af því fyrir 1. janúar 2009.