133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

frumvörp um eignarhald orkufyrirtækja.

[12:06]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra er kannski ekki mjög vanur að svara fyrirspurnum þingmanna á þinginu. En það er samt eitt af helstu hlutverkum ráðherra, handhafa framkvæmdarvaldsins, að upplýsa löggjafann, Alþingi, þar sem sitja menn kjörnir af fólkinu í landinu um það sem alþingismenn vilja vita. Svarið sem hæstv. iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson gaf hér 1. nóvember, fyrir viku, var klárlega þannig að ekki ætti að breyta tengslum ríkisins við þau tvö fyrirtæki sem spurt var um. Ráðherra sagði ekki satt miðvikudaginn 1. nóvember hér í þinginu. Það er hörmulegt. Það er vont fyrir ráðherrann. Verst fyrir hann er það að fyrst hann sagði ekki satt um þetta atriði hljóta menn að efast um að hann hafi sagt satt um önnur atriði. Það er alvarlegt vegna þess að ráðherrann lýsti því hér yfir að þrátt fyrir ákvæði um hugsanlega endursölu Landsvirkjunar þá stæði ekki til af hans hálfu þessa sjö mánuði sem hann á eftir að sitja í sínum stól (Gripið fram í.) og ekki af hálfu ríkisstjórnarinnar allrar, þar á meðal Sjálfstæðisflokksins, að einkavæða Landsvirkjun.

Þess vegna hlýtur maður að spyrja nú, forseti, sama hæstv. iðnaðarráðherrann, aftur þessarar spurningar: Þarf líka að leggja þann skilning í það svar sem hann gaf hér um einkavæðingu á Landsvirkjun að einhver vafi leiki á?