133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

varðveisla og miðlun 20. aldar minja.

227. mál
[12:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég er hingað komin í rauninni til að mótmæla því sem hv. þingmaður sagði, þ.e. að við hefðum sinnt því frekar seint að fara yfir, skoða og varðveita hugsanlegar menningarminjar sem tengjast veru varnarliðsins enda er vera varnarliðsins tvímælalaust stór hluti af okkar 20. aldar sögu sem við verðum vissulega að fara mjög vel yfir.

Það hefur verið gert, bæði í samráði og samvinnu við einkaaðila en ekki síst fyrir tilstuðlan þjóðminjavarðar, Fornleifaverndar ríkisins og líka utanríkisráðuneytisins sem hefur verið vel vakandi varðandi það menningarsögulega gildi sem vera varnarliðsins var hér fyrir okkur Íslendinga. Hún er mikilvægur partur af okkar íslensku sögu. Við erum öll vel vakandi yfir þessu en að þessum hlutum er unnið á faglegum forsendum.