133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

forvarnir í fíkniefnamálum.

149. mál
[14:57]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Við viljum standa okkur vel í þessu og ég veit að stjórnarandstaðan vill það líka, það er alveg ljóst.

Við erum ekki hvumpin, alls ekki, en auðvitað svörum við fyrir okkur þegar sagt er að við höfum sett innan við 100 milljónir í forvarnir, það er bara alls ekki rétt. Þetta er langtum meira en milljarðurinn sem lofað var þannig að við stóðum vel við það. Ég vil nefna eitt dæmi sem sýnir hvað það er flókið að reikna svona út. Á næsta ári verður veltan í gegnum SÁÁ, fyrir þjónustu þeirra sem er mjög mikilvæg og er að vissu leyti að hluta til forvarnastarfsemi, — að hluta til ekki en að hluta til er hún það því ef vel er staðið að starfsemi SÁÁ þá verður minni vandi í framtíðinni — þar verður veltan á næsta ári í kringum 580 milljónir. Svona er hægt að telja upp margar lykiltölur sem skipta máli í þessu.

Það er rétt að þetta er þjóðfélagsvandi. Ég mundi alls ekki segja að okkur hafi mistekist í þessum málum, alls ekki, og rannsóknir sem hafa verið gerðar sanna það. Þar má m.a. nefna nýja alþjóðlega rannsókn, HSDC, en miðað við svör ungmenna úr henni kemur í ljós að staðan sé batna á sumum sviðum en ekki að versna, þannig að okkur hefur ekki mistekist. Það fer mjög mikið forvarnastarf fram í landinu, bæði á vegum hins opinbera en ekki síður á vegum félagasamtaka sem eru styrkt af opinberu fé. Þar nýtast krónurnar mjög vel, þær margfaldast þar að verðgildi af því að fólk leggur á sig sjálfboðastarf á móti.

En ég vil ítreka að það er mjög mikilvægt að fjölskyldurnar líti svolítið inn á við líka og efli fjölskylduböndin og reyni að styrkja og styðja við börn og unglinga til þess að minnka líkur á að þau leiðist út í fíkniefna- og áfengisvanda. (Forseti hringir.) Það er því bæði hið opinbera en alls ekki síður fjölskyldan sem þarf að taka sig á í framtíðinni.