133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi.

156. mál
[15:26]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns, og hv. þingmenn þekkja, óskuðu stjórn og framámenn Garðyrkjuskóla ríkisins eftir því þegar frumvarp um Landbúnaðarháskóla Íslands var í meðförum þingsins árið 2004 að verða þriðja stoðin í þeim nýja skóla. Það var gert í meðförum þingsins. Það var Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum og Rannsóknastofnun landbúnaðarins á Keldnaholti sem runnu saman í eina stofnun þegar Landbúnaðarháskóli Íslands var stofnaður með lögum nr. 71/2004.

Frá þeim tíma þegar starfsemi Garðyrkjuskóla ríkisins stóð með sem mestum blóma hafa miklar breytingar orðið í íslensku samfélagi og innan garðyrkjunnar. Áherslur í garðyrkju hafa breyst á seinni árum sem kemur hvað greinilegast fram í því að aðsókn í starfsmenntanám í ylrækt er nær engin á meðan góð aðsókn er í aðrar greinar garðyrkjunnar, eins og garðplöntuframleiðsluna, skrúðgarðyrkju og blómaskreytingar. Hugmyndir eru uppi um nýjar áherslur hvað þennan stað og Landbúnaðarháskólann varðar, m.a. sem tengjast umhirðu íþróttavalla og golfvalla og brýnt er að kryfja til mergjar markaðinn fyrir slíkt nám. Nauðsynlegt er að Landbúnaðarháskólinn geti svarað breyttum þörfum samfélagsins fyrir fagfólk á sviði garðyrkju og jafnframt að sjálft námið uppfylli breyttar kröfur.

Á vegum landbúnaðarháskólans hefur verið skipaður sérstakur starfshópur sem vinnur að skilgreiningu á þessum þörfum og því hvaða breytingar þarf að gera á námi og námsframboði. Í þessu starfi, sem ég geri mér vonir um að ljúki nú um áramót, er og verður náið samráð haft við hinar ýmsu greinar garðyrkjunnar. Einnig hefur verið skipaður starfshópur til að skilgreina þörfina fyrir rannsókn í þágu garðyrkjunnar.

Skráðir nemendur í Landbúnaðarháskóla Íslands eru nú 246. Þar af eru 44 nemendur í garðyrkjugreinum staðsettir á Reykjum í Ölfusi. Áætlanir skólans gera ráð fyrir að árið 2010 geti nemendur skólans verið allt að 500. Einnig er ljóst að þörf verður á umfangsmikilli starfsemi á sviði endurmenntunar og námskeiðshalds á vegum skólans fyrir hinar hefðbundnu greinar landbúnaðarins og í garðyrkju en ekki síður vegna nýrra viðfangsefna í landbúnaði svo sem í skógrækt og vegna þeirrar miklu nýsköpunar sem nú fer fram í sveitunum.

Í samræmi við þetta er unnið að greiningu á þörfum Landbúnaðarháskólans fyrir húsnæði og nauðsynlega uppbyggingu húsnæðis í því sambandi á Hvanneyri og á Reykjum. Fyrir liggur heimild til að selja hluta af landi Reykja í Ölfusi og jarðirnar Mógilsá og Kollafjörð til að standa undir kostnaði við slíkar framkvæmdir.

Ljóst er að meginstarfsstöðvar Landbúnaðarháskólans eru, og ég segi verða, á Hvanneyri, á Keldnaholti og á Reykjum í Ölfusi. Mikilvægt er að hafa í huga í þessu sambandi að um er að ræða starf og skipulag einnar stofnunar en ekki þriggja eins og áður var. Fyrir stofnunina er brýnt að starfseminni verði komið fyrir á sem hagkvæmastan hátt og ekki er síður mikilvægt fyrir nemendur og starfsemina að fólkið finni sig sem hluta af heildinni, hvort sem það eru kennarar eða nemendur, og njóti þeirra faglegu og félagslegu hlunninda sem öflugt háskólastarf gefur.

Ljóst er einnig að sá húsakostur sem til staðar er á Reykjum þarfnast gagngerðrar endurnýjunar eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Ráðist verður í þær framkvæmdir þegar fyrir liggur hvaða þættir í starfsemi Landbúnaðarháskólans verða staðsettir þar. Ég tel mikilvægt að hraða þessari stefnumörkun því að óvissa hefur slæm áhrif á bæði kennara og aðsókn nemenda.

Reykir í Ölfusi eru vel í sveit settir. Þar er til staðar mjög fullkomin aðstaða til rannsókna. Ég trúi því að hægt sé að efla námsframboð og samstarf bæði við aðra háskóla og atvinnulífið sjálft, eins og nú tíðkast mjög hjá háskólum víða um veröld. Með rekstri landbúnaðarháskólans starfar háskólaráð sem fer með stefnumörkun um framtíðina. Ég veit að þetta fólk er að byggja upp sterkan landbúnaðarháskóla og horfir með virðingu á þann efnivið sem það fékk í hendur, þann mikla auð sem hver eining skólans býr yfir og vill styrkja rannsóknir, nám og námsframboð miðað við breytta tíma. Reykir njóta fullrar (Forseti hringir.) virðingar í allri þeirri umræðu og ég trúi því að framtíðin geri það að verkum (Forseti hringir.) að þar verði öflugt starf áfram.