133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

295. mál
[16:06]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hér er um stefnubreytingu að ræða sem m.a. kemur fram í nýju nafni ráðsins en þegar leitað er að grundvelli og útfærslu þessarar stefnubreytingar þynnist þrettándinn nokkuð í greinargerðinni og í ræðu hæstv. forsætisráðherra.

Tvennu fer ég fram á að hæstv. flutningsmaður svari mér nú, annars vegar því hvort stefnumótun ráðsins, þar sem sitja fjórir ráðherrar og tveir sérskipaðir fulltrúar hæstv. forsætisráðherra úr atvinnulífinu, er ætlað að hafa áhrif á tillögur fagráðanna um úthlutun úr rannsóknasjóði. Í öðru lagi: Hver er skýringin á þeim orðum í greinargerð með þessu frumvarpi að sú stefna sem móta á þurfi, með leyfi forseta, „að taka til þátta sem fram til þessa hafa ekki verið á dagskrá ráðsins“? Hvaða þættir eru það?