133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

295. mál
[16:23]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur gengið fram í því að fjölga störfum fyrir fólk með stutta skólagöngu. Fyrir þær miklu framkvæmdir sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir geldur annað atvinnulíf í landinu og ekki síst hátækniiðnaður vegna erfiðs rekstrarumhverfis.

Ríkisstjórnin hefur líka setið aðgerðarlaus hjá og horft upp á mikla byggðaröskun sem hefur orðið á landinu og ekki aðhafst neitt að gagni til þess að breyta atvinnulífi á landinu þannig að hlutfall þeirra greina sem byggja á þekkingu og menntun sé nokkurn veginn svipað í hinum ýmsu landshlutum. Horft hefur verið þegjandi á að þjónustugreinar flytjist af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og þekkingargreinar ýmiss konar eiga í mjög miklum erfiðleikum nánast alls staðar á landsbyggðinni.

Nú erum við að taka til umræðu eitt af þremur lagafrumvörpum sem fjalla um vísindarannsóknir, vísindamenntun, tækniþróun og nýsköpun í landinu og stuðning við þær í gegnum Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og um Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Það stendur í 2. gr. frumvarpsins sem við erum að taka til umræðu núna, um stefnu stjórnvalda, með leyfi forseta:

„Stefna stjórnvalda í vísindum, tækni, nýsköpun og atvinnuþróun skal mörkuð af Vísinda- og nýsköpunarráði til þriggja ára í senn.“

Verið er að fjalla um helstu og kannski einu stefnumótun ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum í landinu. Ég vek athygli á því að inn í frumvarpið bætist við verkefnið um nýsköpun og atvinnuþróun frá fyrri lögum.

Frú forseti. Atvinnulíf er meira en það sem byggist á vísindarannsóknum, tækniþróun og nýsköpun. Það er mjög hæpið, tel ég, að setja fram frumvarp eins og þetta og frumvarpið um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins þar sem ekki er gert ráð fyrir stuðningi við aðrar greinar en þær sem geta flokkast undir það sem áðan var talið upp. Því okkur þingmönnum landsbyggðarinnar er í það minnsta alveg ljóst að byggja þarf upp annars konar atvinnugreinar en þær sem undir þetta falla. Það þarf að styðja við ýmiss konar atvinnustarfsemi aðra en þá sem getur fallið undir það sem hér er skilgreint.

Ég vil t.d. nefna þjónustugreinar sem þarf að endurreisa á landsbyggðinni og þarf að móta stefnu um hvernig á að byggja upp á landinu öllu þannig að það geti þjónað landsmönnum öllum.

Ekki er skilgreint í frumvarpinu hvað nýsköpun er. Það eru í ýmsum lagafrumvörpum og lögum skilgreiningar á orðanotkun og þær eru oft og tíðum mjög mikilvægar. Frumvarpið þýðir væntanlega að hægt er að styðja við uppbyggingu greinar á meðan hún er alveg ný á einhverjum stað á landinu en ekki mun verða hægt að styðja við sams konar eða svipaða starfsemi annars staðar af því hún telst ekki lengur nýsköpun, vegna þess að búið er að koma henni upp. Jafnvel þó að fullur grunnur kunni að vera til þess að starfsemi sé á mörgum stöðum á landinu, ef ég skil orðið nýsköpun rétt.

Það er áhyggjuefni, verulegt áhyggjuefni, að ekki skuli bóla á því neins staðar í þeim þremur frumvörpum sem ég minntist á, að efla eigi atvinnulíf almennt á landinu. Það þarf hins vegar ekki að koma á óvart, virðulegi forseti, vegna þess að við sjáum það stöðugt og ávallt í þau bráðum 12 ár sem þessir flokkar hafa starfað saman, að enginn vilji er til þess að hafa hönd í bagga með ýmsum landsvæðum á landinu nema helst að nafninu til. Norðurhluti Vestfjarða er allra skýrasta dæmið þar um því það á þó að heita svo að Ísafjarðarbær sé byggðakjarni. Þar dregur alveg stöðugt úr opinberum störfum. Mun fleiri sem fara í burtu en þeir örfáu sem bætast við. Það sem verið er að gera í stuðningi við atvinnulífið er svo lítið miðað við það sem þörf er á að varla tekur því að tala um það.

Ég vil mælast til þess við fulltrúa í allsherjarnefnd þar sem þetta mun koma til umræðu að þetta verði skoðað mjög vandlega með tilliti til stuðnings við annað atvinnulíf í landinu og stuðnings við atvinnulíf á landsbyggðinni sérstaklega þar sem ég get ekki séð að um auðugan garð sé að gresja í því efni almennt. Hvað varðar tímann sem er ætlaður til stuðnings, við skulum segja nýsköpun eða endursköpun atvinnulífsins, þá er hann líka of stuttur. Það þarf að vera langur tími til að byggja upp atvinnulíf og ekki síst þegar um er að ræða svæði mjög víða á landsbyggðinni þar sem bókstaflega er enginn peningur til.

Ég ætla að nefna sem dæmi að á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum höfum við horft upp á mestu fólksfækkun á öllu landinu undanfarið. Þar erum við líka með lægstar meðaltekjur á landinu. Á Norðurlandi vestra, virðulegi forseti, svo ég nefni það sem dæmi, er eitt fyrirtæki sem hugsanlega gæti staðið undir einhverri framþróun í atvinnulífinu. Þar búa þó um 10 þúsund manns.

Ef virkilega er vilji til þess að standa að nýsköpun eða endurreisn atvinnulífsins á umræddum svæðum þarf að koma til stuðningur. Hann þarf að vera öflugur og það þarf að halda honum að fólki á þeim svæðum og styðja það til að standa að uppbyggingu atvinnulífsins.