133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:15]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrra atriðið vil ég sérstaklega undirstrika að áfram eru tengsl við Náttúrufræðistofnun Íslands en mikilvægt er að hið nýja Náttúruminjasafn sé í tengslum við aðrar rannsóknarstofnanir, t.d. Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun, til að stuðla að því að Náttúruminjasafnið hafi sem víðfeðmustu safni yfir að ráða og reyni að miðla af því sem þeir geta í tengslum við náttúruminjar og umhverfismál.

Varðandi hitt atriðið er rétt sem fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins, þ.e. að þetta eigi að fjármagna af óskiptum liðum ráðuneytisins. Ég tel að það verði vandkvæðum bundið. Ég get alveg tekið undir það. Það er einu sinni þannig að fagráðuneytin eru ekki alltaf sammála fjárlagaumsögninni frá fjármálaráðuneytinu. Minn hugur og menntamálaráðuneytisins stendur til þess að þar séum við að tala um eitt af höfuðsöfnunum.

Þar verður að vanda vel til verka, hvort sem er við fjárlagagerð eða rammalöggjöfina sem vísar veginn varðandi uppbyggingu safnsins sem slíks.