133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:39]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Fáum þjóðum er meiri nauðsyn en okkur Íslendingum, sem byggjum alla okkar afkomu á náttúrunni, að eiga gott og metnaðarfullt náttúruminjasafn eða náttúrugripasafn, safn sem getur kennt komandi kynslóðum og okkur sjálfum að þekkja náttúruna, skilja hana og virða. Það er þess vegna ekki vansalaust að nú, 117 árum eftir að Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað í þeim tilgangi einum „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, …“ skulum við standa hér og ekki geta boðið börnum okkar og gestum upp á nútímalega og spennandi fræðslu um náttúrufar landsins.

Við verðum að muna að baráttan fyrir uppbyggingu náttúruhúss, náttúruminjasafns, snýst ekki um það sem í hugum margra er svona klassískt gamaldags safn með skúffum, endalausum röðum af ótrúlega svipuðum eggjum eða grjóti, heldur hljótum við að hafa þann metnað að hér rísi nútímalegt náttúru- og vísindasafn sem sýnt getur almenningi, jafnt fræðimönnum, ferðamönnum og forvitnum krökkum safn sem hefur fræðilegan bakhjarl og beitir nýjustu sýningartækni við kynningu á niðurstöðum rannsókna á náttúru Íslands og miðlar mikilsverðum erlendum fróðleik og náttúru- og vísindasýningum. Við verðum að hafa metnað til þess að koma upp veglegu náttúruhúsi þar sem litið er heildstætt á náttúruna, þar sem náttúrulegir ferlar eru kynntir, þar sem við getum kynnst og skoðað hvernig landið okkar og náttúra þess hefur mótast og er enn í mótun og ekki síður hvaða áhrif náttúran hefur á okkur mennina og við á hana.

Álíka ræður hafa verið fluttar í 117 ár og nú stöndum við á haustdögum 2006 með það sem heitir frumvarp til laga um Náttúruminjasafn Íslands. Mikið væri gaman að geta sagt: Til hamingju, Ísland, með þetta. En því miður fylgja því afskaplega mikil vonbrigði að fletta í gegnum þetta plagg vegna þess að mér sýnist að hér sé því miður um eins konar pappírs- eða skúffufyrirbæri að ræða, lagatæknilegt atriði.

Ég ætla ekki að fara út í að ræða hvað rammalöggjöf eða lagabálkur, eins og hæstv. ráðherra kallaði þetta áðan, þýðir í huga mínum eða annarra. Það sem upp úr stendur er að frumvarpi til laga um Náttúruminjasafn Íslands fylgja engir fjármunir, engin stefna, engar áætlanir um uppbyggingu sýningarhúss. Ekki er vísað til þess sem áður hefur verið gert í þeim efnum, en fyrir liggja ítarlegar athuganir á rýmisþörf, á sýningarstefnu og á uppbyggingu á metnaðarfullu náttúruhúsi. Ég ætla að leyfa mér að lyfta hér upp einu litlu plaggi upp á — ja, það vantar nú allt blaðsíðutal, ætli þetta séu ekki um 80–90 blaðsíður, síðasta stóra skýrslan sem unnin hefur verið um uppbyggingu náttúruhúss í Reykjavík.

Þetta liggur allt saman fyrir en það er eins og það hafi gleymst. Það þarf alltaf að byrja upp á nýtt í þessu máli. Hvernig í ósköpunum stendur á því að eftir þessi 117 ár og 15 eða 17 nefndir skulum við enn vera í þessum sporum? Ég get, virðulegur forseti, trútt um talað því að málið er mér skylt. Ég hef síðustu tíu ár verið starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands og haft sérstaklega með sýningarsalina tvo að gera sem eru þar til bráðabirgða og hafa verið frá 1967.

Ég hef líka setið í tveimur svona nefndum. Ég sat á vegum menntamálaráðuneytisins í þeirri nefnd sem gerði tillögu um það til Alþingis og til ríkisstjórnar að hér yrði komið á hugmyndasamkeppni um byggingu náttúruhúss á grundvelli þeirrar stefnumótunar sem búið var að vinna, á grundvelli samkomulags sem fyrir lá á milli Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og ríkisins.

Það verður að segjast eins og er að ríkið hljópst undan merkjum. Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg, með Davíð Oddsson þá í forsvari og síðan aðra borgarstjóra á eftir honum, voru tilbúin til að koma að þessu verkefni árið 1991 og í nokkur ár þar á eftir. En þegar ríkið sýndi aldrei lit töldu þessir aðilar sig stikkfrí. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur verið leitað eftir því við undirbúning á því máli sem nú liggur fyrir hvort Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands eru tilbúin til að taka aftur upp viðræður um byggingu náttúrugripasafns eða náttúruhúss í Reykjavík með þeirri kostnaðarskiptingu sem búið var að semja um á sínum tíma eða annarri?

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra líka: Hefur ráðherrann hugsað sér að halda til haga þeirri lóðaúthlutun sem fyrir lá og fyrir liggur á háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni? Þar er lóð undir náttúruhús við hliðina á Öskju, kennsluhúsnæði í náttúrufræðum, lóð sem er merkt G á uppdráttum af háskólasvæðinu. Eða eru einhverjar aðrar lóðir sem ráðherrann hefur í huga? Það hafa nokkrar verið nefndar, en ég ætla ekki að rekja það hér þó að ég gæti það.

Það er mjög mikilvægt að í þessu frumvarpi sé tekið skýrt fram hvernig samvinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafnsins eigi að vera háttað. Hvers vegna? Jú, vegna þess að á Náttúrufræðistofnun Íslands eru líklega eitthvað um 2 eða 2,5 milljónir safngripa. Þetta eru vísindasöfn stofnunarinnar. Mjög margir, gott ef ekki næstum því allir þeir gripir gætu þjónað sem sýningargripir en eru það eðlilega ekki. Hins vegar er mjög mikilvægt fyrir Náttúruminjasafn, ef það á að koma því upp með þessum hætti, að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem liggja fyrir hjá Náttúrufræðistofnun og jafnvel að gripum til sýningar ef á þarf að halda.

Það þarf auðvitað að kveða skýrt á um þetta því að það er eins og hv. þm. Mörður Árnason nefndi hér áðan að verkaskipting Stjórnarráðsins er ekki endilega og hefur ekki endilega verið þessu máli í hag undanfarinn áratug eða svo. Það var menntamálaráðuneytið sem á sínum tíma setti af stað þessa vinnu við náttúruhús í Reykjavík. Þegar þær tillögur lágu fyrir á árinu 1991 var umhverfisráðuneytið tekið til starfa. Menntamálaráðuneytið þó hendur sínar þar með. Með því féll þetta mál eiginlega niður á milli stafs og hurðar, eins dapurlegt og það nú er. Með safnalögum á árinu 2001 var í rauninni skilið á milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafns eða Náttúrugripasafns.

Í því frumvarpi sem hér er lagt fram er gerð tilraun til þess að splæsa þetta aftur saman og ég virði hana mikils og tel mjög nauðsynlegt að það sé gert. Ég vil auðvitað helst sjá að skipulag Stjórnarráðsins þurfi ekki að þvælast svona fyrir mönnum við uppbyggingu á jafnmikilvægum verkefnum og hér er um að ræða. Það þarf auðvitað að vera farvegur fyrir samvinnu um uppbyggingu mikilla verkefna eins og þessa. Við skulum ekki gleyma því að við erum að tala hér um, ætli það séu ekki í það minnsta 1,5–2 milljarðar kr. sem þarf til þess að reisa myndarlegt náttúruhús, að lágmarki? Hæstv. ráðherra viðurkenndi áðan — eins og við vitum — að það eru engir fjármunir ætlaðir hvorki til undirbúnings verksins né til þess að ráða nokkurn mann til þess að koma að því. Hæstv. ráðherra viðurkenndi að það gæti orðið vandkvæðum bundið að taka það fé af eigin reikningi ráðuneytisins.

Þess vegna þarf auðvitað að gera ítarlegar áætlanir um fjármögnun, það þarf að leita samstarfs aðila um þetta mikla verkefni og í ljósi sögunnar og í ljósi þeirra fyrirheita sem á sínum tíma voru gefin er eðlilegt að hæstv. ráðherra leiti eftir því — nú eða þá menntamálanefnd ef henni býður svo við að horfa — hvort Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands eru ekki tilbúin til þess að hlaupa undir árar í þessu verkefni aftur.

Það er ekki hægt að skilja við þetta mál öðruvísi en að nefna það sem hér hefur borið á góma sem er það mikla tjón sem varð á munum í frystigeymslum Náttúrufræðistofnunar í leiguhúsnæði, einu af mörgum úti í bæ. Eins og ég nefndi áðan eru í vísindasöfnunum yfir tvær milljónir gripa og þessir gripir eru geymdir tvist og bast um bæinn, enginn þeirra við eðlileg og rétt geymsluskilyrði. Mig langar til þess að spyrja ráðherrann hvort sú könnun sem hv. þm. Mörður Árnason nefndi hér áðan, á geymslumálum safna, taki ekki örugglega til geymslna hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og þeim safnkosti sem þar er og í sýningarsafninu sérstaklega. Aðstæður í sýningarsafninu, bráðabirgðahúsnæðinu á Hlemmi, eru alls ekki eins og þær ættu að vera en samkvæmt þessu frumvarpi er a.m.k. ljóst að þann hluta mundi nýtt náttúruminjasafn taka yfir.

Ég sakna þess, eins og ég hef sagt, að hér séu engar áætlanir og engir peningar og engar hugmyndir um fjármögnun eða staðsetningu. En ég sakna þess líka að það sé ekki reiknað með því, hvorki í greinargerð né frumvarpstexta að um þetta mikla verkefni verði haft samráð, ekki aðeins við þá aðila sem ég nefndi sem eru Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands, heldur líka við umhverfisráðuneytið, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi hér áðan, og ég vil nefna Hið íslenska náttúrufræðifélag sérstaklega, sem var á sínum tíma stofnað til þess eins, eins og ég sagði, að koma upp veglegu náttúrugripasafni á landinu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við þessa aðila verði haft gott samráð því að við megum ekki fara af stað enn einn ganginn og byrja upp á nýtt, láta eins og ekkert hafi gerst, nú eigi bara að byrja og gera bara eitthvað, setja svona lög og svo eigi að ráða einn mann og svo eigi hann að fara að leita að einhverju og skoða eitthvað. Það hefur svo mikið gerst í þessu máli og það er svo mikill efniviður og það er svo brýn þörf, það er svo mikilvægt að það verði farið í þetta mál af metnaði og af krafti. Það eru mér mjög mikil vonbrigði að mér finnst ekki örla á því í þessu frumvarpi.

Við skulum samt leyfa okkur að vera bjartsýn. Kannski verður hægt í meðförum þingsins að gera þetta með myndarlegri hætti en hér er af stað farið með. Ég þekki ekki hvort það er mögulegt en ég vona það. Það er að mínu mati alla vega ekki nóg og það dugir skammt að hafa falleg orð um samnýtingu á því húsnæði sem ekkert er, því að Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ekkert húsnæði sem er boðlegt fyrir sýningarmuni, ekki einu sinni fyrir vísindasöfn stofnunarinnar. Það er ekki nóg að hafa uppi falleg orð um samnýtingu slíks húsnæðis í þessu skyni eftir 117 ár, það þarf að kveða sterkar að orði og leita eftir fleirum til þess að taka á í þessu efni. Ég vil leyfa mér að fullyrða miðað við forsögu málsins að það ætti að vera hægt ef rétt er á málum haldið.