133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:42]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra og lýsa ánægju með þann metnað sem kemur fram í orðum hæstv. ráðherra. Við eigum að hafa þann metnað. Kannski til að bæta fyrir það metnaðarleysi, sem hefur einkennt okkur síðustu 100 árin sem höfum lifað af gæðum íslenskrar náttúru, að við skulum ekki hafa sýnt þann skilning betur í verki en við höfum gert.

En það er líka rétt að árétta, og ég hygg að allir séu sammála um það, að hið metnaðarfulla Náttúruminjasafn verður að hafa fastar, lifandi rætur í vísindasamfélaginu. Það er vísindasamfélagið sem á að næra safnið, ekki bara vísindasamfélagið sem ég hygg að muni þó verða hryggjarstykkið í því, þ.e. vísindamenn Náttúrufræðistofnunar, heldur einnig aðrir vísindamenn á öðrum sviðum íslenskrar náttúru eða öðrum sviðum náttúrunnar.

Svo kemur að þeim þætti sem hæstv. ráðherra nefndi, þ.e. rannsóknarskyldu safnsins. Ég geri mikinn greinarmun á rannsóknarvinnu safnafólks, sem ef til vill miðar frekar að því að gera störf annarra vísindamanna sýnileg og aðgengileg fyrir almenning. Ég tel sem sagt mikinn mun á þeirri rannsóknarskyldu sem hinn hefðbundni náttúrufræðingur sinnir, og því sem safnafólkið er að sinna til að gera vísindasamfélagið sýnilegra og aðgengilegra fyrir almenning.

Það er hið lifandi safn sem ég sé fyrir mér með allri þeirri nútímatækni sem við þekkjum en ekki einungis uppstoppaða seli, geirfugla og grjót.